Forráðamenn bandaríska seðlabankans horfa til Norðurlanda þegar kemur að lausn þess vanda sem felst í fjármálakreppunni sem herjar á bandaríska hagkerfið. Breska dagblaðið The Daily Telegraph hefur heimildir fyrir því að starfsmenn bandaríska seðlabankans hafi sett sig í samband við starfsbræður sínar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi til þess að læra af reynslu þeirra af fjármálakreppum. Sem kunnugt er gekk bankakreppa yfir Skandinavíu í byrjun tíunda áratugarins og þóttu viðbrögð stjórnvalda við henni almennt vera til fyrirmyndar.

Fram kemur í blaðinu að Donald Kohn, aðstoðarseðlabankastjóri Bandaríkjanna, hafi miklar áhyggjur hversu djúpstæð kreppan er á fjármálamörkuðum og horfi til Norðurlanda í leit að úrræðum og innblæstri. Þrátt fyrir að yfirvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafi ekki farið nákvæmlega sömu leið við björgunina á bankakerfinu var alls staðar lögð áhersla á að hlutafjáreigendur banka í vandræðum yrðu ekki skornir úr snörunni og komast undan því að fjárfesting þeirra yrði að engu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .