Þjóðnýtti bankinn Northern Rock reiknar með að vera ábyrgur í 10% allra tilfella þar sem útlánastofnun leysir til sín fasteign vegna vanskila. Stjórnendur bankans reyna nú hvað þeir geta til að borga skattgreiðendum aftur það lán sem bankanum var veitt svo aftur megi skrá hann á markað. Guardian segir frá þessu.

Nýr forstjóri Northern Rock, sem fenginn var frá Barclays til að koma rekstri Northern Rock aftur á réttan kjöl, viðurkenndi að nokkur fjöldi lántekenda væri í svo miklum vandræðum að þeir afhentu bankanum hreinlega lyklana að húsinu sínu án umræðna. Um þriðjungur þeirra fasteigna sem Northern Rock hefur leyst til sín eru að upplagi lántekenda. Bankinn gengur nú að 0.56% alra veða sem hann er með í fasteignum, en það er þrefalt meðaltalinu í þessum geira. Fasteignalán eru 30% af heildarútlánum bankans , en um er að ræða fasteignalán í 75% tilfella sem bankinn gengur að veði.

Stjórnendur bankans hafa þó sagt að þetta sé ekki aðalleiðin til að borga aftur lán Northern Rock. Slík starfsemi hafi aðeins skapað 1% allra tekna á fyrstu níu mánuðum ársins.