Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. „Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Stefnan tekur jafnt til neyslu áfengis, ólöglegra vímuefna og misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum sem valda ávana og fíkn,“ segir um stefnuna í frétt á vef ráðuneytisins.

Í stefnunni segir að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa sé að takmarka aðgengi. Það sé meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis, virkt eftirlit með notkun lyfseðilsskyldra lyfja, öflugri löggæslu og virku tolleftirliti.

Unnið verður að nánari útfærslu stefnunnar, með skilgreindum mælanlegum markmiðum og aðgerðum til að ná ofangreindum yfirmarkmiðum, á þessu ári og verður unnin aðgerðaráætlun sem mun gilda í tvö ár í senn. Við val á aðgerðum og forgangsröðun þeirra verður meðal annars stuðst við tillögur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.