Nýr innritunarsalur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf, FLE, verður formlega tekinn í notkun í dag, föstudag, klukkan 15:00. Um er að ræða eitt þúsund fermetra stækkun á salnum sem fyrir var um 500 fermetrar. "Við þessa breytingu fá farþegar stóraukið rými, afgreiðsla verður hraðari, skilvirkari og þægilegri fyrir farþega og starfsfólk," segir Stefán Jónsson, forstöðumaður fasteignasviðs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. í Viðskiptablaðinu í dag en kostnaður við salinn, breyttar akstursleiðir og bílastæði við húsið er um 215 milljónir króna.

Enn frekari framkvæmda er að vænta í flugstöðinni næsta vetur. Þar ber hæst að nefna stækkun móttökusalar farþega og hefjast framkvæmdir í haust en kostnaður við þær framkvæmdir eru einnig 215 milljónir króna og er áætlað að verkið klárist fyrir áramót. Þá eru einnig stækkanir á rými fríhafnarverslunar í norðurbyggingu og endurskipulagning brottfararsvæðis á 2. hæð meðal þeirra verkefni sem ráðist verður í en þó ekki fyrr en í byrjun febrúar á næsta ári.

Kostnaðaráætlanir fyrir þær framkvæmdir eru þó ekki enn tilbúnar. Framkvæmdirnar eru kostaðar alfarið af FLE og fær hún ekki styrki frá ríkinu vegna þeirra. Stefán segist ekki gera ráð fyrir að ráðast þurfi í frekari breytingar á næstu árum en það fari þó að sjálfsögðu eftir því hversu mikil farþegarfjölgunin verður. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpar gesti og opnar salinn formlega til innritunar farþega.