*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 8. janúar 2017 14:06

Nýr sáttmáli lagður fyrir flokksráð

Stofnanir Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar funda á morgun og verður ný ríkisstjórn kynnt í framhaldinu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur verið boðað til fundar í Valhöll klukkan átta annað kvöld. Á sama tíma hittist ráðgjafaráð Viðreisnar og stjórn Bjartrar framtíðar. Þetta kom fram í fréttum RÚV. Reiknað er með því að nýr stjórnarsáttmáli flokkanna verði lagður fyrir fundina til samþykktar.

Eftir fundina þrjá er búist við því að flokkarnir sendi frá sér sameiginlega fréttatilkynningu um myndun nýrrar stjórnar. Líklega verður það gert á þriðjudaginn en mögulega gæti það dregist fram á miðvikudag.

Endanlegt samkomulag um skiptingu ráðuneyta liggur ekki fyrir og þar með ekki heldur hvaða þingmenn flokkanna þriggja fá ráðherrastól. Þó stóru fundirnir séu á morgun eru forystumenn flokkanna þriggja líka að funda með sínu fólki í dag.

Í dag eru 72 dagar liðnir frá því nýtt þing var kjörið. Stjórnarmyndunarferlið nú fer því í sögubækurnar sem eitt það allra lengsta. Árið 1947 tók 117 daga að mynda ríkisstjórn og árið 1987 tók það 74 daga.