Ljósleiðaravæðing Skeiða- og Gnúpverjahrepps er hafin. Stefnt er að því að leggja ljósleiðara á 172 heimili í hreppnum og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 195 milljónir króna.

Sveitarfélagið ætlar sjálft að reka ljósleiðarann en það hefur stofnað félagið Fjarskiptafélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps utan um lagninguna og reksturinn. Sveitarfélagið leggur 50 milljóna króna hlutafé í reksturinn. Hreppurinn er sagður standa vel fjárhagslega eftir sölu á Límtrésverksmiðju.

Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu að verkið er fjármagnað með eigin fé að stærstum hluta en auk þess njóti hreppsmenn rammasamnings sem gerður var við Landsvirkjun í tengslum við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Liður í samkomulaginu fól í sér að Landsvirkjun kostaði hluta af ljósleiðaraverkefninu. Þá segir í blaðinu að ekki sé vitað um aðrar sveitir utan Öræfasveitar sem hafi ráðist í slíkt verk.