Heimsverð á olíu fór yfir 120 Bandaríkjadali í morgun og hefur nú ekki verið hærra síðastliðna tvo mánuði. Fjárfestar fylgjast nú grannt með leiðtogafundi Evrópusambandsins sem stendur yfir í dag og á morgun þar sem meðal annars verður fjallað um kaup aðildarríkja á olíu frá Rússlandi. Reuters greinir frá.

Verð á tunnu af Brent hráolíu stendur nú í tæplega 120 dölum og hefur ekki verið hærra frá byrjun mars síðastliðins, stuttu eftir innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Evrópusambandið fundar nú um sjötta pakkann af þvingunaraðgerðum á hendur Rússlandi. Aðildarríki ESB komust ekki að samkomulagi í gær um innflutningsbann á rússneskri olíu. Áfram verður þó rætt um mögulegt bann á innfluttri olíu frá Rússlandi með skipaflutningum, en innflutningur gegn um olíuleiðslur (e. pipeline) yrði áfram heimilaður.

Samkvæmt heimildum Reuters hyggjast OPEC+ ríkin hafna ákalli Vesturlanda um aukna framleiðslu.