Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, er nú komin á stall með borgum eins og Reykjavík, New York og Dyflinni, en yfirvöld hafa bannað reykingar á veitinga- og skemmtistöðum í borginni. Hinsvegar eru það ekki heilbrigðissjónarmið sem ráða för heldur sú staðreynd að leiðtogi landsins, Kim Jong-il, hefur þurft að hætta reykingum að læknisráði.

Kim Jong-il, eða "Leiðarstjarna 21. aldarinnar", eins og hann er iðulega kallaður í ríkisfjölmiðlum landsins, gekk undir hjartaaðgerð fyrir nokkru og læknar hans hafa ráðlagt honum að láta af reykingum og áfengisneyslu, en þrálátur orðrómur hefur verið um stórtæka neyslu hans á þessum vandmeðförnu neysluvörum. Sökum þess að einræðisherrann ákvað að fylgja ráði læknanna hafa reykingar verið bannaðar í öllum þeim opinberu byggingum og öðrum þeim stöðum sem hann leggur leið sína til. Norður-Kórea er eitt lokaðasta land heims og stopular fréttir berast þaðan. Breska blaðið Financial Times hefur eftir Jang Sung-min, ráðgjafa Kim Dae-Jung fyrrum forseta Suður-Kóreu og helsta arkitekt Sólskinsstefnunnar svokölluðu en svo nefnist viðræðustefna stjórnvalda í Seúl gagnvart Norður-Kóreu, að allir þurfi að taka tillit til bannsins og gildi einu hvort að um sé ræða háttsetta embættismenn eða venjulega borgara.

Stjórnmálaskýrendur fylgjast grannt með fréttum af heilsufari Kim Jong-il en leitt er líkum að því að stjórnkerfi kommúnistaríkisins muni hrynja falli hann frá. Slíkt kynni að valda pólitískum landskjálftum á Kóreuskaga og í nágrannaríkinu Kína, en stjórnvöld í Peking óttast mjög hugsanlegt flóttamannavandamál í kjölfar slíkrar atburðarásar. Orðrómur um hjartaaðgerð Kim Jong-il komst í hámæli í maí og fjölluðu suður-kóreskir fjölmiðlar mikið um meinta rýrnun á holdafari hans og fölnandi ásjónu. Leyniþjónusta Suður-Kóreu fullyrðir að hann hafi gengið undir aðgerðina en hinsvegar er það mat sérfræðinga hennar að ástand hans sé ekki það alvarlegt að það kunni að óbreyttu að draga hann til dauða. Kim Jon-il er sextíu og fimm ára að aldri og þrátt fyrir að leiðtoginn sé þekktur fyrir óhóf hvað varðar mat, tóbak og drykk kann svo að fara að bjarmi "Leiðarstjörnunnar" muni ekki slokkna í bráð. Sérstaklega ef hann líkist föður sínum og forvera í embætti en hann lifði í ríflega áttatíu ár.