*

föstudagur, 16. apríl 2021
Innlent 13. maí 2020 18:11

Peel ræður Íslendinga í herferðina

Peel bregst við umræðu um niðurstöðu útboðs vegna alþjóðlegrar markaðsherferðar. Hyggjast ráða íslenskt auglýsingafólk.

Ritstjórn
Magnús Magnússon er framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Peel.
Aðsend mynd

Íslenska auglýsingastofan Peel, í samstarfi við M&C Saatchi, sem varð í fyrsta sæti í útboði fyrir verkefni stjórnvalda með SA í gær, hyggst ráða önnur innlend framleiðslufyrirtæki og fleira vant auglýsingafólk til að vinna með sér að markaðsátakinu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar/TBWA, hafi þótt grátlegt að missa verkefni af þessari stærðargráðu út úr landinu. Einungis 0,82% hafði munað á milli M&C Saatchi Ltd og Pipar Media í mati valnefndar. 

Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér síðdegis í dag segir að markaðsátakið sé að andvirði 300 milljóna króna, en stjórnvöld hafa talað um að setja 1,5 milljarð króna til að styrkja ímynd landsins og auka eftirspurn erlendra ferðamanna. 

„Ég er sammála Guðmundi Pálssyni hjá Pipar, sem hefur tjáð sig um úrslit útboðsins í fjölmiðlum í dag, um að það skiptir miklu máli að hafa öflugan auglýsinga- og markaðsgeira á Íslandi. Sú mikla samkeppni sem sást í útboðinu er í mínum huga til vitnis um hversu öflugar og metnaðarfullar íslenskar auglýsingastofur eru." segir Magnús Magnússon, stofnandi og framkvæmdarstjóri Peel.

„Þetta er verkefni sem allar íslensku stofurnar vildu fá og flestar buðu fram samstarf erlendra og innlendra aðila. Við erum afar auðmjúk yfir því að hafa orðið fyrir valinu í samkeppni við svo margar flottar stofur. Okkar sýn á þetta er sú að við varðveitum best gæðin í íslenskum auglýsingageira með því að eiga í samstarfi við fremsta auglýsingafólk í heimi. Rétt eins og íslensk kvikmyndagerð og dagskrárgerð hefur notið þess ríkulega að þekking hefur byggst upp í stórum alþjóðlegum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem tekin hafa verið upp hér á landi, eins og Star Wars og Game of Thrones.“

Öll íslensku flugfélögin hafi leitað erlendis

„Verkefnið sem við erum takast á hendur snýst um að markaðssetja Ísland í útlöndum og til að ná góðum árangri þá þurfum við að vinna með fólki sem þekkir vel til á þessum mörkuðum og starfar þar alla daga. Öll íslensk flugfélög hafa til dæmis í gegnum árin leitað til erlendra fyrirtækja varðandi aðstoð við að koma sér á framfæri við ferðamenn í hverju landi fyrir sig,“ segir Magnús.

„Að sama skapi vinna flestar íslenskar auglýsingastofur fyrir erlend vörumerki sem leitast eftir þekkingu þeirra við að markaðssetja sig og auglýsa hér á landi. Domino‘s í Bretlandi, sem er eigandi Domino‘s keðjunnar hér, notast við íslenska auglýsingastofu, íslenskt veffyrirtæki og íslenska samfélagsmiðlastofu. Sama má segja um Coke, Pepsi, IKEA eða Uncle Ben‘s hrísgrjón.

Magnús segir verkefnið nú ekkert vera öðruvísi, markmiðiði sé að auglýsa Ísland sem áfangastað í öðrum löndum.

„Stór hluti af framleiðslunni mun fara fram hér því þekkingin á landinu sem við erum að markaðssetja skiptir máli. Við ætlum að ráða til okkar fjölda íslenskra undirverktaka á ýmsum sviðum framleiðslunnar og því munu margir fleiri njóta góðs af verkefninu. Staðreyndin er líka bara sú að íslenskt auglýsingafólk er mjög öflugt og félagar okkar í þessu verkefni á M&C Saatchi hafa nefnt það sérstaklega við okkur að þeim finnist magnað hvað auglýsingar eru í háum gæðaflokki hér, miðað við hvað þetta er fámennt samfélag.“

Starfsmenn og stofnendur Peel eru fyrrverandi starfsmenn Íslensku auglýsingastofunnar sem að sögn Magnúsar komu að Inspired by Iceland herferðinni sem stjórnvöld settu af stað, í samvinnu við ferðaþjónustufyrirtæki, sumarið 2010 til að fá fólk til að ferðast hingað til lands eftir gosið í Eyjafjallajökli. Inspired by Iceland hlaut fjölda virtra verðlauna og var unnin í samstarfi við alþjóðlegu auglýsingastofuna The Brooklyn Brothers.

M&C Saatchi ein þekktasta, ef ekki sú þekktasta, af þeim auglýsingastofum sem starfa á alþjóðavettvangi að sögn Magnúsar. Stofan hafi unnið til fjölda verðlauna fyrir herferðir sínar svo sem á auglýsingaverðlaunahátíðinni í Cannes. Meðal viðskiptavina hennar eru Coca-Cola, Adidas, Heineken, WhatsApp, SKY og ferðamálaráð Ástralíu.