*

föstudagur, 16. apríl 2021
Innlent 13. maí 2020 07:06

1,5 milljarða átaksverkefni úr landi

Formaður SÍA og framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar í 2. sæti segir grátlegt að horfa á eftir ímyndarverkefni stjórnvalda.

Ritstjórn
Guðmundur Pálsson er framkvæmdastjóri Pipar\TBWA sem lenti í öðru sæti í útboði Ríkiskaupa um átaksverkefnið og jafnframt formaður SÍA.
Eva Björk Ægisdóttir

Guðmundur Pálsson formaður SÍA og framkvæmdastjóri Pipar\TBWA segir ósamræmi vera milli verkefnis stjórnvalda með SA um að velja íslenskt á sama tíma og Íslandsstofa velji erlenda auglýsingastofu til að sinna 1,5 milljarða króna markaðssátaki um að styrkja ímynd landsins og auka eftirspurn eftir því sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.

„Það er grátlegt að hugsa til þess að þessir fjármunir og öll þessi störf eigi að fá að fljóta úr landi þegar munurinn er svona hverfandi lítill og úrslitin ákveðin af valnefnd sem augljóslega þarf að stærstum hluta að styðjast við huglægt mat,“ segir Guðmundur.

Niðurstaða útboðs vegna sérstaks markaðsátaks fyrir Ísland í kjölfar Covid-19 var kunngjört í gær, þriðjudag. Munurinn á tveimur efstu auglýsingastofunum sem sóttust eftir verkinu var að mati valnefndar aðeins 0,82% milli M&C Saatchi Ltd og Pipar Media ehf, en þriðja sætið hlaut Brandenburg ehf.

Ríkiskaup sendu frá sér einkunnir þeirra stofa sem voru í þremur efstu sætunum og eins og sjá má er ákvarðaður munur dómnefndar á tveimur efstu sætum svo lítill að nánast megi segja hann ómarktækan.

  • 1. sæti - M&C Saatchi Ltd. með 87,17 af 100 punktum
  • 2. sæti - Pipar Media með 86,35 af 100 punktum
  • 3. sæti - Brandenburg með 77,38 af 100 punktum

„Munurinn á milli erlendu auglýsingastofunnar M&C Saatchi Ltd. og Pipar Media ehf. var ekki nema 0,82% því fyrrnefnda í hag. Það er grátlegt að hugsa til þess að þessir fjármunir og öll þessi störf eigi að fá að fljóta úr landi þegar munurinn er svona hverfandi lítill og úrslitin ákveðin af valnefnd sem augljóslega þarf að stærstum hluta að styðjast við huglægt mat. Og það einmitt á sama tíma og ríkið er að leggja af stað með Samtökum atvinnulífsins með stóra herferð undir yfirskriftinni Veljum íslenskt,“ segir Guðmundur.

„Það er leitt til þess að hugsa að það verði ekki markaðsfólk á Íslandi sem leiðir þetta stóra og mikilvæga verkefni fyrir Ísland. Greinilegt er að munurinn er örsmár milli tveggja efstu sæta miðað við einkunnir sem gefnar voru þeim stofum sem tóku þátt. Það er óheppilegt fyrir íslenskt efnahagslíf að verkefninu sé ekki stýrt frá Íslandi, störfin skapast verða þá ekki hér heima og eins aftrar þetta uppbyggingu þeirrar þekkingar á alþjóðlegri markaðssetningu sem skapast hefur hér á landi undanfarin ár.”

Tvær efstu stofurnar með mismunandi umgjörð

„Munurinn á þessum tveimur efstu tilboðum er að í öðru tilfellinu er um að ræða íslenska stofu sem nýtur aðstoðar erlendra stofa sem undirverktaka í þeim þáttum sem nauðsynlegir eru til að ná árangri á einstaka mörkuðum, en í hinu tilfellinu höfum við breska stofu sem ætlar sér að nota lítið íslenskt fyrirtæki sem undirverktaka,“ heldur Guðmundur áfram.

„Því er ljóst að stærstur hluti kostnaðar við markaðssetningu er snýr að sérfræðiþekkingu og vinnuafli skapast erlendis, í stað þess að beina þessum viðskiptum til innlendra fyrirtækja. Takmarkið er herferð sem miðar að því að skaffa landinu fjármuni og þá hlýtur að teljast umhugsunarvert að vilja senda þessar upphæðir úr landi. Og eins með þekkinguna.

Að halda áfram að byggja upp þekkingu á alþjóðlegri markaðssetningu hér á landi skiptir miklu máli fyrir íslenska útflytjendur til framtíðar. Slík þekking er í mikilli hættu þar sem ferðaþjónustuaðlilar munu draga verulega saman í auglýsingum næstu mánuðina. Þar með leysast markaðsteymi upp og þekkingin tapast. Þetta eru auðvitað vonbrigði fyrir atvinnugreinina alla.“

Hjá Pipar auglýsingastofu og dótturfélaginu The Engine starfa 45 manns en, frirtækið var tilnefnt til fjölda alþjóðlegra verðlauna árið 2019 og hlaut meðal annars Gullverðlaun Clio-auglýsingaverðlaunanna í Bandaríkjunum fyrst allra íslenskra auglýsingastofa.

Jafnframt hefur fyrirtækið fengið 9 tilnefningar til alþjóðlegra verðlauna bæði fyrir verkefni sem unnin eru fyrir íslensk og erlend fyrirtæki. Stór hluti starfsemi Pipars og The Engine fer fram á erlendum markaði og hafa fyrirtækin m.a. unnið fyrir Visit Sweden, Visit Canada, Vodafone, Orange, Taxback Group og NetApp.