Rekstrar­niður­staða Kópa­vogs­bæjar fyrir fjár­magns­liði árið 2023 var já­kvæð um 2,7 milljarða sem er hækkun úr 1,3 milljörðum árið 2022. Rekstrarniðustaðan eftir gjöld og fjármagnsliði var þó neikvæð um 753 milljónir.

Skulda­við­mið bæjar­fé­lagsins lækkaði úr 95% í 91% sem er vel undir lög­bundnu há­marki sem er 150% sam­kvæmt sveitar­stjórnar­lögum.

Í Kaup­hallar­til­kynningu Kópa­vogs­bæjar segir að árs­reikningurinn endur­spegli „traustan rekstur sveitar­fé­lagsins“ sem hefur styrkst veru­lega milli ára.

Nær engar lóða­út­hlutanir voru á árinu með til­heyrandi tekjum.

Í ár mun bæjarfélagið hins vegar út­hluta lóðum í Vatns­enda­hvarfi og fyrsta út­hlutun lóða á næstunni. Kópavgosbær stefnir að því að út­hluta öllum lóðum í Vatns­enda­hvarfi á árinu sem mun skila sér inn í niður­stöðu árs­reiknings 2024.

„Rekstur Kópa­vogs­bæjar styrkist um­tals­vert milli ára sem endur­speglar ríka á­herslu okkar á traustan rekstur. Þannig er af­gangur af rekstri bæjarins fyrir fjár­magns­liði 1,4 milljörðum hærri en í fyrra þrátt fyrir að líf­eyris­skuld­binding hækki um 1,3 milljarð milli ára. Þá er veru­legt styrk­leika­merki að veltu­fé frá rekstri eru fimm milljarðar króna og eykst um tæpa tvo milljarða milli ára. Veltu­fé frá rekstri er al­gjör lykil­tala í árs­reikningi og er það svig­rúm sem reksturinn gefur til að standa undir fram­kvæmdum og af­borgunum lána,” segir Ás­dís Kristjáns­dóttir, bæjar­stjóri Kópa­vogs.

Fjár­festingar og fram­kvæmdir í eignum bæjarins námu um 5,2 milljörðum króna. Viða­mesta fram­kvæmdin er ný­bygging Kárs­nes­skóla við Skóla­gerði sem kostaði um 1,1 milljarð.

„Skulda­staða bæjarins er heil­brigð þrátt fyrir miklar fjár­festingar í leik- og grunn­skólum og öðrum nauð­syn­legum inn­viðum sam­fé­lagsins. Skulda­hlut­fall Kópa­vogs­bæjar fer á­fram lækkandi og er langt undir lög­bundnu skulda­við­miði.

Krefjandi rekstrar­um­hverfi, mikil verð­bólga og háir vextir lita enn heildar­niður­stöðu ársins og leiða til þess að fjár­magns­kostnaður er veru­lega um­fram á­ætlun. Verk­efnið nú sem endra­nær er að standa vörð um góðan rekstur þannig að á­fram sé unnt að veita góða þjónustu en á sama tíma lækka skatta á bæjar­búa,“ segir Ás­dís.

Skulda­við­mið A- og B-hluta lækkar frá fyrra ári og er 91%, var 95% í árs­lok 2022. Skulda­við­mið A-hluta er 82%.

Vaxta­berandi skuldir í árs­reikningi fyrir 2023 eru ríf­lega 35 milljarðar. Heildar­skuldir og skuld­bindingar Kópa­vogs­bæjar hækka úr 54 í 58 milljarða eða rúm 7%. Þannig lækka skuldir að raun­virði ef tekið er til­lit til verð­bólgu sem var 8% á árinu 2023.

Veltu­fé frá rekstri sam­stæðunnar, A- og B-hluta, hækkar í tæpa fimm milljarða úr rúm­lega þremur milljörðum króna frá fyrra ári.

Eigið fé sam­kvæmt saman­teknum efna­hags­reikningi A- og B-hluta í árs­lok 2023 nam 38,3 milljörðum króna en eigið fé A-hluta nam 18,4 milljörðum króna.