*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 12. nóvember 2020 09:08

Sænskt ráðgjafarfyrirtæki til Íslands

Fasteignaráðgjafarfyrirtækið Croisette Real Estate Partner opnar starfsemi á Íslandi. Styrmir Karlsson verður framkvæmdastjóri.

Ritstjórn
Styrmir Bjartur Karlsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Croisette á Íslandi, og Per Svensson, stofnandi og forstjóri Croisette Real Estate Partner.
Aðsend mynd

Sænska fasteignaráðgjafarfyrirtækið Croisette Real Estate Partner færir út kvíarnar og opnar í desember starfsemi á Íslandi þar sem boðið verður upp á alhliða ráðgjöf á fasteignamarkaði, m.a. kaup- og sölu, atvinnuhúsnæðis, verðmat og leigumiðlun. Styrmir Bjartur Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Croisette á Íslandi. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Croisette var stofnað í Malmö 2015 og hefur vaxið hratt á undanförnum árum og hefur nú meira en fimmtíu starfsmenn á fimm skrifstofum á helstu mörkuðum Svíþjóðar. Á næstu árum hyggur fyrirtækið á aukinn vöxt erlendis og er Ísland fyrsta skrefið í þá átt. Á Íslandi eru mikil tækifæri á fasteignamarkaði að mati Croisette; fjöldi fasteignafélaga sem skráð eru á hlutabréfamarkaði er stór miðað við hin Norðurlöndin og fólksfjöldaþróun, stafræn þróun og jafnrétti í samfélaginu er þættir sem alþjóðlegir fasteignafjárfestar meta mikils í leit að nýjum tækifærum,“ segir í tilkynningu.

Líkt og fyrr segir hefur fyrirtækið fengið til liðs við sig athafnamanninn og fasteignasalann Styrmi Bjart Karlsson sem framkvæmdastjóra. Hann hefur meira en tveggja áratuga reynslu af alþjóðlegri viðskiptastarfsemi, meðal annars í Svíþjóð þar sem hann bjó í sex ár.

„Við vorum mjög heppin að komast í samband við Styrmi sem reyndist vera fullkominn í verkefnið að koma á fót starfsemi Croisette utan Svíþjóðar. Hann hefur ekki eingöngu frábært tenglanet, hann passar auk þess mjög vel inn í fyrirtækjamenningu okkar og framtíðarsýn. Mér finnst gott að geta falið Styrmi það verkefni að byggja upp árangursríka starfsemi á Íslandi, hann hefur sama metnað og við og sömu sýn á möguleika og tækifæri," er haft eftir Per Svensson, stofnanda og forstjóra Croisette Real Estate Partner í tilkynningunni.

Hann bætir við að aðstæður séu nú á margan hátt svipaðar þeim sem ríktu í Malmö þegar Croisette var stofnað 2015. Markaðurinn sé nægilega stór en ekki í forgangi hjá fjárfestum.

„Hjá okkur hefur Ísland hins vegar algjöran forgang og það eru miklir möguleikar á að finna samlegðaráhrif með öðrum mörkuðum þegar fram líða stundir. Það er sömuleiðis mikill kostur að Ísland og Svíþjóð byggi á sömu grunngildum."

Styrmir Bjartur Karlsson segir íslenska markaðinn hafa náð þeim þroska að þörf sé á alþjóðlegum aðila inn á markaðinn.

„Íslenski fasteignamarkaðurinn hefur þróast hratt síðastliðinn áratug samhliða vexti ferðamannaiðnaðarins og á Íslandi eru mikil tækifæri í fasteignaþróun og viðskiptum. Við teljum komu Croisette inn á markaðinn vera frábært tækifæri til þess að þróa markaðinn enn frekar og að opna markaðinn fyrir fleiri beinum erlendum fasteignafjárfestingum. Það er mér mikill heiður að ganga til liðs við Croisette og við horfum spennt til framtíðar."

Aðaleigandi Croisette Real Estate Partner er Per Svensson en meðal eigenda fyrirtækisins er einnig Erik Selin, einn umsvifamesti fasteignafjárfestir Svíþjóðar.