Seðlabanki Íslands stöðvaði í lok nóvembermánaðar erlenda millifærslu að fjárhæð 10,15 milljónir evra, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna, sem ALMC, móðurfélag Straums fjárfestingarbanka, hugðist greiða kröfuhöfum félagsins samkvæmt ákvæði í lánasamningi sem ALMC gerði við Deutsche Bank þann 16. mars síðastliðinn. Er greint frá þessu í VIðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

ALMC átti að greiða fjárhæðina, ríflega 10 milljónir evra, þann 20. nóvember á grundvelli ákvæðis um fyrirframgreiðslu skulda þegar lausafjárstaða fyrirtækis fer yfir tiltekin mörk, svokallaðs uppsópsákvæðis (e. cash sweep). Sama dag barst félaginu hins vegar tilkynning frá Seðlabankanum um að greiðslan væri óheimil samkvæmt lögum um gjaldeyrismál. ALMC hefur tilkynnt eigendum skuldabréfsins um greiðslufall á skuldabréfinu og að félagið eigi nú í viðræðum við yfirmenn Seðlabankans vegna þessa.

Eitt af þeim skilyrðum sem Seðlabankinn hefur sett ALMC svo félagið fái aftur heimild frá Seðlabankanum til að greiða af skuldabréfinu er að það selji eignir á markaði að andvirði 25,6 milljónir evra, jafnvirði ríflega 4,2 milljarða króna, í skiptum fyrir krónur. Það er sú upphæð sem ALMC hefur skipt í evrur frá samþykkt lánasamningsins um miðjan mars á þessu ári.