,,Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur lagt sitt af mörkum, og ríflega það, til að rýra traust og trúðverðugleika Íslands,  bæði innan lands og erlendis," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í grein sem hún ritar í Viðskiptablaðið í dag .

,,Maður sem umboðslaust tekur sér vald til að marka stjórnarstefnu og notar það til að lýsa því yfir við heiminn að við Íslendingar séum óreiðufólk sem ætlum ekki að borga skuldir okkar getur ekki notið trausts út á við."

Steinunn hvetur til þess í greininni að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, - sem þó er hvergi nefndur á nafn berum orðum -  verði settur úr embætti. Að öðrum kosti verði ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar endurskoðað. Steinunn Valdís segir:

,,Það er, vont að stunda meðvirkni. Allt of margir hafa fallið í það far að undanförnu og er undirrituð eflaust ekki undanskilin. Ég studdi samstarf samfylkingar og sjálfstæðisflokks fyrir 18 mánuðum vegna trúar á þeim verkefnum sem þessir flokkar sameinuðust um. Nú er svo komið að ég hef efasemdir um framhaldið ef gamli afinn á að fá að brjóta og bramla í stofunni og skemma móralinn á stjórnarheimilinu. Því segi ég: kveðjum þann gamla og byrjum upp á nýtt. Það væri augljóst og heppilegt fyrsta skref í að endurheimta traust svo við getum einbeitt okkur að lausn þeirra lífsnauðsynlegu verkefna sem fyrir liggja. Að öðrum kosti er fullt tilefni til að stokka upp á nýtt."

Sjá nánar í grein Steinunnar Valdísar í Viðskiptablaðinu í dag .