Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur síðustu vikur tekið gróf skref sem miða að niðurrifi flugvallarins í Reykjavík. Þetta segja forsvarsmenn samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni. Þetta gerir meirihlutinn á sama tíma og hann lætur svo virðast í fjölmiðlum að málið sé í farvegi nefndar Rögnu Árnadóttur sem ríki, borg og Icelandair standa að.

Samtökin segja að árásir borgarinnar á völlinn séu þrjár og standi stuðningsmenn flugvallarins í ströngu við að verja flugvöllinn með aðstoð lögfræðinga og annarra sérfræðinga.

1. Hlíðarendi. Byggð á Hlíðarenda mun eyðileggja neyðarbraut flugvallarins sem færir nýtingarhlutfall vallarins niður í ruslflokk. Lokunardögum fjölgar til muna og völlurinn verður ófær til sjúkraflugs í verstu veðrum. Borgin hefur tilkynnt að framkvæmdir hefjist í árslok 2014.

2. Fluggarðar. Borgin tilkynnti nýverið eigendum fasteigna í Fluggörðum að niðurrif flugskýla og flugskóla á svæðinu hefjist strax árið 2015 og verði án bóta. Niðurrifið rífur hjarta kennslu og almannaflugs upp með rótum og er enginn annar staður í boði fyrir starfsemina. Borgin ráðgerir að hefja niðurrif strax eftir áramót.

3. Skerjafjörður. Borgin hefur samþykkt skipulag og tilkynnt um byggð sem rísa á á neyðarbraut flugvallarins við Skerjarfjörð. Byggðin mun eyðileggja neyðarbrautina og hafa alvarleg áhrif á flugsamgöngur til borgarinnar í verstu veðrum.

Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni segja þess vegna að af þessu megi ljóst vera að meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar virði ekki samkomulag um sáttarferli flugvallarins sem samið hafi verið um í Hörpu þann 25. október. Meirihlutinn hafi hafið árás á flugvöllinn á þremur vígstöðvum samtímis og fari fram með áður óþekktu offorsi gegn flugrekendum, fasteignaeigendum og flugnemum.

Hjartað í Vatnsmýri ítrekar að 70.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun til meirihluta borgarstjórnar og Alþingis um að tryggja flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar. Þá vilja 80% landsmanna og 71% íbúa í Reykjavík að völlurinn verði áfram í Vatnsmýri.