Í dag tekur gildi nýtt skipulag á sölu- og markaðsviði Icelandair. Miðar nýtt skipulag að því að einfalda skipulagið og aðlaga að umhverfinu til frekari sóknar.

Ábyrgð á sölu- og markaðsmálum verður í auknum mæli færð heim til Íslands og millistjórnendum mun fækka á erlendum starfstöðvum fyrirtækisins. Þessi ábyrgð mun færast undir sjö svið sem eru: Markaðsmál, Sala- og þjónusta um borð, Tekjustýring, Sölusvið, Þjónustuver, Söludreifing og nýtt svið sem undirstrikar stefnu félagsins og ber heitið Notenda- og þjónustuupplifun.

„Það er öllum fyrirtækjum hollt að fara í gegnum skipulagsbreytingar og í því liggja fjölmörg tækifæri. Með þessum breytingum blæs flugfélagið sem fagnar 80 ára afmæli á þessu ári til frekari sóknar með nýju og liprara skipulagi sem mun skerpa áherslur, auka skilvirkni og gera þjónustu okkar enn betri“, segir Guðmundur Óskarsson framkvæmdastjóri Sölu- og Markaðssviðs í fréttatilkynningu sem Icelandair sendi frá sér.

Í nýju skipulagi munu eftirfarandi einstaklingar taka við nýjum hlutverkum:

Jón Skafti Kristjánsson mun taka við sem forstöðumaður Markaðsdeildar og Markaðssamskipta hjá Icelandair. Jón hefur gegnt stöðu vörumerkjastjóra Icelandair frá 2015 en starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Icelandair Cargo á árunum 2013–2015. Með fram námi á árunum 2011–2013 starfaði hann í sölu og sérverkefnum hjá Icelandair Cargo. Jón er með MSc. í alþjóðamarkaðsfræði og stjórnun frá Copenhagen Business School og BSc. í viðskiptafræði með áherslu á markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.

Þórdís Anna Oddsdóttir mun taka við sem forstöðumaður Tekjustýringar.  Þórdís Anna hóf störf hjá Icelandair árið 2013 sem verkefnastjóri á fjármála- og rekstrarstýringarsviði. Frá 2015 hefur hún starfað sem forstöðumaður sölu og þjónustu um borð. Áður starfaði hún sem ráðgjafi hjá Statoil í Danmörku 2010–2012 og á árunum 2007–2009 við áhættustýringu hjá Straumi Fjárfestingarbanka. Þórdís Anna er með MSc. í iðnaðarverkfræði frá Georgia Institute of Technology og BSc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands auk þess að vera með próf í verðbréfamiðlun.

Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir mun taka við sem forstöðumaður hins nýja sviðs, Notenda- og þjónustuupplifun hjá Icelandair. Ingibjörg hóf störf hjá Icelandair árið 2004 sem flugfreyja. Á árunum 2005-2007 var Ingibjörg Ásdís verkefnastjóri vef- og markaðsmála og frá 2007–2010 sá hún um samningagerð og samskipti við fjármálastofnanir og banka fyrir hönd Icelandair Saga Club. Frá 2010–2016 starfaði hún sem forstöðumaður Customer Loyalty og Icelandair Saga Club og frá 2016 hefur Ingibjörg starfað  sem svæðisstjóri Icelandair á Íslandi. Hún er með BSc. Í viðskiptafræði og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Einar Páll Tómasson mun taka við sem forstöðumaður Sölusviðs. Hann hefur verið forstöðumaður Markaðsdeildar og viðskiptaþróunar frá 2016. Einar Páll hóf störf hjá Icelandair árið 2005 sem sölustjóri í Hollandi.  Árið 2006 tók hann við sem svæðisstjóri fyrir Mið-Evrópu og árið 2008 sem svæðisstjóri fyrir meginland Evrópu. Á árunum 1999–2005 var Einar Páll markaðsstjóri MasterCard á Íslandi og var auk þess fulltrúi í "Branding & Sponsorhsip Work Group" hjá MasterCard í Evrópu.  Einar Páll er með BSc í viðskiptafræði frá BI Norwegian Business School með áherslu á alþjóðamarkaðsfræði og stjórnun.

Sarah Unnsteinsdóttir mun taka við sem forstöðumaður Þjónustuvers. Sarah hóf störf á söluskrifstofu Icelandair árið 1998. Á árunum 2001–2005 starfaði hún sem sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Amadeus í Frakklandi. Á árunum 2005–2012 starfaði hún sem deildarstjóri í net dreifikerfum Icelandair. Frá 2012–2016 starfaði hún sem yfirmaður þjónustu á samfélagsmiðlum. Sarah er með BA í frönsku frá Háskóla Íslands og hefur sótt námskeið á háskólastigi í stærðfræði og stjórnendaþjálfun Icelandair Group.

Árni Sigurðsson , sem verið hefur forstöðumaður Söludreifingar frá árinu 1996 mun áfram gegna því hlutverki. Hann hefur starfað hjá félaginu frá 1976 og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Óráðið er í stöðu forstöðumanns Sölu- og þjónustu um borð.