*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 16. janúar 2021 13:15

Slógu aðalmarkaði við

Hlutabréf Hampiðjunnar hækkuðu um 75% í fyrra, mest allra í Kauphöllinni, en félagið er skráð á First North.

Júlíus Þór Halldórsson
Hjörtur Erlendsson hefur verið forstjóri Hampiðjunnar frá 2014. Á þeim tíma hefur hlutabréfaverð félagsins ríflega fjórfaldast.
Eva Björk Ægisdóttir

Hlutabréf Hampiðjunnar hækkuðu um 75% á síðasta ári, mest allra félaga í Kauphöllinni, og hafa hækkað um tæp 10% til viðbótar það sem af er þessu ári. Félagið hefur vaxið statt og stöðugt síðustu ár, og stefnir á að halda því áfram.

Tekjur drógust saman um 5,5% milli ára á fyrri hluta síðasta árs, en rekstrarhagnaður (EBITDA) jókst hinsvegar um 17,5%, og hagnaður um 24,8%. Tekjurnar námu um 12 milljörðum króna og hagnaðurinn tæpum 1,2 milljörðum. Þá voru greiddar út 563 milljónir króna í arð á nýliðnu ári vegna hagnaðar ársins áður.

Eins og flest önnur fyrirtæki þurfti Hampiðjan að gera ráðstafanir vegna heimsfaraldursins, en þökk sé áhrifaríkum sóttvörnum og mikilvægu hlutverki rekstrarins í að styðja við sjávarútveg hélt starfsemin svo til óhindruð áfram.

Samlegðaráhrif bæta framlegð
„Sölukostnaður dróst saman vegna þess að sýningum var frestað og ferðalög lögðust af. Auk þess náðum við fram aukinni framlegð á fyrri hluta ársins með því að ná í þau samlegðaráhrif sem við höfum verið að sækjast eftir, og teljum okkur enn eiga eitthvað inni í þeim efnum,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, en félagið hefur bæði keypt og stofnað þónokkur fyrirtæki undanfarin ár.

Hann segir það taka nokkur ár að ná fram öllum samlegðaráhrifunum í hverju fyrirtæki fyrir sig, meðan hin nýkeyptu eða -stofnuðu fyrirtæki færi sig smátt og smátt yfir í þau veiðarfæraefni sem Hampiðjan framleiðir. „Við veljum að gera þetta mjög varlega. Þegar menn hafa notað ákveðin efni í veiðarfæri í langan tíma þá þarf að reyna nýju efnin og sjá hvort þau eru ekki jafn góð eða, að okkar von, betri. Slíkt ferli getur tekið töluvert langan tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.