Margir markaðsaðilar spá því að Tesla muni greina frá einu slakasta ársfjórðungsuppgjöri sínu á síðustu sjö árum eftir lokun markaða á morgun, að því er segir í frétt Financial Times. Rafbílaframleiðandinn glími nú við minni eftirspurn og krefjandi verðstríð.

Tesla hefur þegar greint frá því að það afhenti 386,8 þúsund bíla á fyrsta ársfjórðungi sem samsvarar um 8% samdrætti frá sama tímabili í fyrra.

Þá gera greiningaraðilar ráð fyrir að framlegð Tesla á fyrsta ársfjórðungi 2024 verði sú lægsta frá því á fyrri hluta árs 2017.

Í umfjöllun FT segir að hluthafar Tesla bíði fregna um hvort félagið hafi sett áform um ódýrari rafbíl, sem hefur verið kallaður Model 2 í fjölmiðlum, á ís. Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur hafnað því að félagið hafi breytt um stefnu varðandi Model 2.

Þá tilkynnti Tesla í síðustu viku um að félagið muni kynna sjálfkeyrandi leigubíl þann 8. ágúst næstkomandi. Musk sagði að það væri hið augljósa skref fyrir félagið að leggja áherslu á sjálfkeyrandi bíla.

Hlutabréfaverð Tesla hefur lækkað um tæplega 4% í viðskiptum fyrir opnun markaða en gengi hlutabréfa félagsins hafði þegar lækkað um 40% frá áramótum.