„Ef að íslenska ríkið þarf að bjarga bönkunum þar í landi, munu erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu ná stjarnfræðilegum hæðum,” segir Ben May, hagfræðingur hjá Capital Economics í samtali við Wall Street Journal.

Bandaríska viðskiptablaðið skrifar í dag um ástand íslensks efnahagslífs og viðhorfi markaðarins til íslensku bankanna. Skuldatryggingaálag íslenska ríkisins hefur hækkað mikið frá því að Glitnir var þjóðnýttur, en ríkið mun eignast 75% hlut í bankanum með útgáfu nýs hlutafjár – að fengnu samþykki hlutahafafundar. Ríkið mun greiða 600 miljónir evra fyrir.

Miðlarar sem WSJ ræddi við í gær sögðu frá því að það kostaði 1,5 milljónir dollara fyrirfram og 500.000 dollara árlega að tryggja 10 milljóna dollara skuld íslenska ríkisins gegn greiðslufalli. Áður kostaði slíkt um 217.000 dollara á ári, og án fyrirframgreiðslu. Fram kemur í grein WSJ að mikill efi sé um hvort íslenska ríkið ráði við kerfislægt hrun fjármálamarkaðarins.

„Enginn vill eiga íslenskar krónur,” segir gjaldeyrissérfræðingur Dresdner Kleinwort í London í samtali við WSJ – „Enginn vill eiga viðskipti við þessa banka.”