Stjórnir Burðaráss hf. , Landsbanka Íslands hf. og Straums Fjárfestingarbanka hf. undirrituðu hinn 1. ágúst 2005 sameiginlega áætlun um skiptingu Burðaráss hf. og samruna við annars vegar Straum Fjárfestingarbanka hf. og hins vegar við Landsbanka Íslands hf.

Ákveðnar eignir Burðaráss, þar með talið hlutafé í D. Carnegie & Co. AB, Intrum Justitia AB, Carrera Global Investments Ltd, Straumi Fjárfestingarbanka hf. og Marel hf. ásamt lausafé, ganga til Landsbankans. Starfsemi Burðaráss ásamt öðrum eignum félagsins sameinast Straumi. Skiptingar- og samrunaáætlunin er m.a. háð samþykki hluthafafunda í samrunafélögunum.

Markmið Straums og Landsbankans með samrununum er að mynda enn stærri og öflugri fjármálafyrirtæki sem eru betur í stakk búin til að takast á við breyttar aðstæður í banka- og fjárfestingastarfsemi hér á landi og stærri verkefni á alþjóðavettvangi. Markmið Burðaráss með skiptingu og samruna félagsins við Straum og Landsbankann er einkum að gefa hluthöfum kost á að eignast hluti í tveimur öflugum fjármálafyrirtækjum.

Við skiptinguna fá hluthafar í Burðarási hlutabréf í Straumi og Landsbankanum. Fyrir hverjar 1.000 kr. að nafnverði hlutafjár í Burðarási fá hluthafar 356,7465 krónur að nafnverði hlutafjár í Landsbankanum og 769,7454 krónur að nafnverði hlutafjár í Straumi.

Hluthafar í Burðarási fá hlutafé að nafnverði 4.575.747.810 kr. í hlutafé í Straumi í skiptum fyrir hlutafé að nafnverði 3.004.095.332 kr. í Burðarási. Skiptihlutfall gagnvart Straumi er því 1,52317. Hluthafar í Burðarási fá hlutafé að nafnverði 2.120.677.803 kr. í Landsbankanum í skiptum fyrir hlutafé að nafnverði 2.940.400.149 kr. í Burðarási. Skiptihlutfall gagnvart Landsbanka er því 0,72122. Við ákvörðun skiptihlutfalla hefur verið miðað við skráð markaðsverð hlutabréfa í félögunum, fjárhagslega stöðu þeirra, afkomu, markaðsstöðu og framtíðarhorfur. Þá hefur verið byggt á endurskoðuðum ársreikningum félaganna fyrir árið 2004 og könnuðum árshlutareikningum þeirra miðað við 30. júní 2005 auk annarra upplýsinga um rekstur þeirra og fjárhagsstöðu.

Í skiptingar- og samrunaáætlun er gert ráð fyrir að Burðarás kaupi hlutafé í Keri hf. og Eglu hf. af Fjárfestingarfélaginu Gretti hf. Um er að ræða kr. 305.938.652 af heildarnafnverði hlutafjár Kers hf. og kr. 446.816 af heildarnafnverði hlutafjár í Eglu hf. Hluti kaupverðs skal greiddur með hlutum að nafnverði 609.756.098 kr. í Burðarási hf. Félagið á eigin hlutabréf að nafnverði 224.078.261 kr. og því er nauðsynlegt að hækka hlutafé félagsins um 385.677.837 kr. Skiptingar- og samrunaáætlunin miðast við að hluthafafundur í Burðarási samþykki framangreind viðskipti og að hlutafé félagsins verði hækkað.

Skiptingar- og samrunaáætlunin verður lögð fyrir hluthafafundi félaganna en dagsetning þeirra verður auglýst síðar.

Skiptingar- og samrunaáætlunin er bundin þeim skilyrðum að hún hljóti fullnægjandi samþykki hluthafafunda í Burðarási, Landsbankanum og Straumi og að samrunar samkvæmt henni hljóti samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins.

Þórður Már Jóhannesson verður forstjóri sameinaðs félags Straums og Burðaráss sem ráðgert er að fái nafnið Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf. Friðrik Jóhannsson lætur af störfum og hverfur að eigin ósk til annarra starfa.