Raoul Weil, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá UBS-bankanum, var handtekinn á hóteli í Bologna á Ítalíu um helgina.

Weil, sem er svissneskur ríkisborgari, var ákærður árið 2008 fyrir að hafa aðstoðað bandaríska auðmenn í að svíkja undan skatti og í kjölfarið var hann rekinn frá UBS-bankanum. Bandarísk yfirvöld náðu aldrei að yfirheyra Weil og snemma á árinu 2009 var hann eftirlýstur. Hann hafði því verið á flótta í rúmlega fjögur ár þegar hann var loks handtekinn um helgina.

Weil er sakaður um að hafa tekið þátt í því að aðstoða 17 þúsund vel efnaða Bandaríkjamenn í að koma eignum undan og svíkja þar með undan skatti. Talið er að samtals hafi eignum að verðmæti 2,400 milljörðum króna verið komið fyrir á svissneskum bankareikningum.

Þegar Weil var ákærður árið 2008 sagði lögmaður hans að ásakanirnar væru „algjörlega óréttmætar“. Enn sem komið er er ekki vitað hvort eða hvenæar Weil verður framseldur til Bandaríkjanna.