Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur óskað eftir því við félagsmálaráðuneytið að rætt verði hvernig hagur neytenda verði best tryggður við fyrirhugaða yfirtöku Íbúðalánasjóðs á íbúðarlánum neytenda í erlendri mynt.

Þetta kemur fram á vef talsmanns neytenda.

Þar kemur jafnframt fram að talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason hefur bent á að hagfellt kunni að vera að festa gengi íslensku krónunnar við slíka yfirtöku af  hálfu Íbúðarlánasjóðs, sbr. opinbera umsögn talsmanns neytenda um frumvarp til neyðarlaga vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. í gærkvöldi.

Jafnframt kemur fram að talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, bendir á fimm konar meginsjónarmið til stuðnings sértækri breytingu á stöðu íbúðarlána í erlendri mynt við yfirtöku Íbúðarlánasjóðs á þeim: neytendasjónarmið, samfélagsleg sjónarmið, stjórnskipuleg sjónarmið, lögfræðileg sjónarmið og hagfræðileg sjónarmið.   Þá eru Stjórnvöld hvött til viðræðna um kosti og galla framangreindra - og eftir atvikum annarra - leiða í því skyni og að hagsmunir og réttindi neytenda verði höfð að leiðarljósi áður en málinu er ráðið til lykta.

Að lokum segir að talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason muni í samráði við sérfræðinga leggja mat á þær leiðir sem til álita koma ef vilji stendur til þess af hálfu félagsmálaráðherra til þess að koma til móts við skuldara íbúðarlána í erlendri mynt eins og væntingar standa til.