Evrópska leigufélagasamstæðan Heimstaden tapaði 64 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi eða 4,7 milljörðum sænskra, en félagið er skráð þar á markað og gerir upp í þeirri mynt. Hlutabréfaverð þess hefur lækkað um 43% það sem af er ári.

Fasteignaverð hefur lækkað víða í Evrópu síðustu misseri, meðal annars um 14% síðan í mars í Svíþjóð, stærsta einstaka markaði félagsins hvar það átti fasteignasafn upp á rétt tæpa 100 milljarða sænskra króna í lok síðasta árs.

Matsbreyting fjárfestingareigna ein og sér var neikvæð um 6,4 milljarða sænskra króna á síðasta ársfjórðungi, en nokkuð stöndugur grunnrekstur mildaði höggið niður í áðurnefnda 4,7.

Félagið hefur rúmt borð fyrir báru þrátt fyrir tapið, enda fasteignaverð hækkað verulega víðsvegar um heim frá því að heimsfaraldurinn skall á og peningamálayfirvöld brugðust við með vaxtalækkunum og peningaprentun.

Enn eimdi nokkuð eftir af fasteignaverðshækkunum í flestum löndum í byrjun þessa árs þegar veiran skæða laut loks í lægra haldi fyrir bólusetningunum og samfélagið fór að færast í eðlilegt horf á ný.

Hagnaður Heimstaden á fyrstu 9 mánuðum ársins nam tæpum 3,9 milljörðum, en til samanburðar var hann 13,3 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Þá jukust heildareignir úr 306 milljörðum sænskra króna í 343 á árinu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.