Þrjú hafa verið sett sem dómarar við Landsrétt. Þrettán dómarar starfa því við réttinn sem stendur. Óvíst er hvort tveir dómarar muni snúa aftur til starfa eða óska eftir launuðu leyfi.

Í gær lá fyrir að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) tæki Landsréttarmálið fyrir. Dómstóllinn hafði í mars dæmt ríkið brotlegt vegna skipunar dómara við réttinn. Ríkið óskaði eftir því að yfirdeildin tæki málið til skoðunar og var fallist á það í gær.

Sem kunnugt er varðar málið dómara sem Sigríður Á. Andersen, þá dómsmálaráðherra, færði ofar á lista dómnefndar um hæfni dómara. Hæstiréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að hnökrar hefðu verið á meðferð málsins en það hnikaði ekki stöðu hinna skipuðu dómara. MDE taldi hnökrana hins vegar svo mikla að það bryti gegn rétti manns til að dómstóll skipaður eftir lögum dæmdi í máli hans.

Frá því að dómur MDE lá fyrir hafa dómararnir fjórir ekki tekið sæti í dómum. Um skeið sinntu því aðeins ellefu dómarar dómstörfum við réttinn og hefur það orðið til þess að mál hafa safnast þar upp. Við það bætist að Ingveldur Einarsdóttir er í námsleyfi til 1. mars 2020.

Tveir dómaranna fjögurra, þeir Jón Finnbjörnsson og Ásmundur Helgason, hafa óskað eftir launuðu leyfi til áramóta. Í stað þeirra þriggja hafa Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, og fyrrverandi héraðsdómararnir Eggert Óskarsson og Sigríður Ingvarsdóttir verið settir dómarar við Landsrétt . Nú sinna því þrettán dómarar dómstörfum.

Óvissa er hins vegar um hvað Arnfríður Einarsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir, hinir dómararnir sem dómsmálaráðherra færði ofar á listanum, munu gera. Komið hefur fram í fjölmiðlum að þær hygðust snúa aftur til starfa ef yfirdeildin tæki málið fyrir. Enn hefur þó ekkert verið gefið út um það.