Hlutabréf spænsku netferðaskrifstofunnar eDreams Odigeo voru tekin til viðskipta í kauphöll Spánar í Madrid í gær. Ferðaskrifstofan er einhver stærsta netferðaskrifstofa í heimi með starfsemi í 42 löndum. Þetta markar nokkur tímamót á Spáni enda var þetta fyrsta skráning fyrirtækis á markað þar í þrjú ár eða síðan hlutabréf spænska bankans Bankia voru tekin til viðskipta. Skráningin mistókst herfilega, gengi bréfa bankans hrundi og töpuðu margir háum fjárhæðum á gjörningnum.

Vonast er til að skráning hlutabréfa netferðaskrifstofunnar gangi betur en Bankia. Breska dagblaðið Financial Times sagði í umfjöllun sinni á fyrsta viðskiptadegi félagsins í gær fjárfesta hafa beðið eftir nýju fyrirtæki á markað.

Ekki tókst hins vegar betur til en svo að gengi hlutabréfa ferðaskrifstofunnar féllu um 5% á fyrsta degi.

Javier Pérez-Tenessa, forstjóri eDreams Odigeo, sagði í samtali við bandaríska dagblaðið Wall Street Journal ekki hafa áhyggjur af þróun mála. Hann horfi til lengri tíma en nokkurra klukkustunda.