Traust til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hefur stóraukist á síðustu mánuðum samkvæmt reglulegri traustkönnun MMR.

Í nýjustu könnun MMR, sem birt var fyrr í þessari viku, mælist Bjarni með tæplega 34% traust sem er mesta traust sem hann hefur mælst með frá því að hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Í könnun MMR til þessa hefur Bjarni mælist með traust á bilinu 12- 19%, en lægst fór það í könnun MMR sem unnin var fyrri Viðskiptablaðið um miðjan apríl sl. eða rétt fyrir kosningar.

Eðli málsins samkvæmt fækkar þeim verulega sem vantreysta Bjarna þó enn mælist hann hæstur þeirra sem fólk vantreystir. Fram til þessa hefur vantraust á Bjarna mælst á bilinu 51-73% og farði hækkandi á síðustu árum. Nú tekur vantraustið hins vegar dýfur niður á við eins og sést á myndinni hér að neðan, en um 43% aðspurðra í nýjustu könnun MMR segjast bera lítið traust til Bjarna.

Traustmæling MMR til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Traustmæling MMR til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
© vb.is (vb.is)

Það sem einnig vekur athygli er að traust til Bjarna meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur aukist umtalsvert. Í könnun MMR í vikunni sögðust tæplega 84% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn bera mikið traust til Bjarna, en hingað til hefur hann verið að mælast með traust á bilinu 50-60% meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Þá hefur traust til Bjarna jafnframt stóraukist meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins. Hingað til hafa um 6-15% stuðningsmanna Framsóknarflokksins borið traust til Bjarna en nú mælst þeir rúmlega 44%. Þá hefur traust til Bjarna aukist lítillega meðal stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Traustmæling MMR til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, flokkað eftir stuðning við einstaka flokka.
Traustmæling MMR til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, flokkað eftir stuðning við einstaka flokka.
© vb.is (vb.is)

Traust til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, var fyrst mælt í könnunum MMR í febrúar sl. Traust til Hönnu Birnu hefur aukist lítillega síðan þá og þá hefur þeim jafnframt fækkað sem vantreysta henni.

Traustmæling MMR til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Traustmæling MMR til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
© vb.is (vb.is)

Hanna Birna nýtur um 85% trausts meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, sem er svipað og hún mældist með í febrúar sl. en litlu minna en hún mældist með í könnun sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið um miðjan apríl sl. Þá hefur traust til Hönnu Birnu aukist lítillega meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins en umtalsvert meðal stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Traustmæling MMR til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, flokkað eftir stuðningi við einstaka flokka.
Traustmæling MMR til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, flokkað eftir stuðningi við einstaka flokka.
© vb.is (vb.is)