Að sögn Auðbjargar Ólafsdóttur, sérfræðings hjá Greiningu Glitnis, virðist tvöfaldur markaður með krónuna að vera að hverfa.

„Í kjölfar nýrra laga og reglna um gjaldeyrismál hefur tvöfaldur markaður með krónuna lognast út af enda mega Íslendingar ekki lengur eiga gjaldeyrisviðskipti utan landssteinanna og tekjur útflytjenda eru farnar að skila sér heim. Gengi krónunnar myndast nú eingöngu á innlendum markaði sem er afar jákvætt enda er það gríðarlega mikilvægt fyrir trúverðugleika krónunnar að ekki sé til staðar tvöfaldur markaður með krónuna sem leiðir af sér fjölgengi," sagði Auðbjörg í samtali við Viðskiptablaði.