Unnið er að því innan fjármálaráðuneytisins að finna fólk í stjórnir Bankasýslu ríkisins annars vegar og opinbers hlutafélags um endurskipulagningu atvinnufyrirtækja hins vegar.

Lög um bankasýsluna og opinbera hlutafélagið voru samþykkt á Alþingi fyrr í sumar.

Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi fjármálaráðherra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verið sé að vinna í þessum málum eins hratt og unnt sé - án þess þó að kasta til höndunum.

Enginn tímafrestur um hvenær nákvæmlega eigi að koma þessum stofnunum á fót var gefinn í lögunum. Þó er tekið fram í bráðabirgðaákvæði laganna um bankasýsluna að hún eigi að gefa fjármálaráðherra ítarlega skýrslu um starfsemi sína í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2009.

Samkvæmt lögunum á að leggja stofnanirnar niður að tilteknum tíma liðnum, þ.e.a.s. Bankasýsluna eigi síðar en fimm árum frá því hún var sett á laggirnar og opinbera hlutafélagið skal hafa lokið störfum eigi síðar en 31. desember 2015.

Upplýst verður um stjórnir í fréttatilkynningu

Samkvæmt lögum heyrir Bankasýsla ríkisins undir fjármálaráðherra. Verkefni hennar er meðal annars að fara með eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum og félögum.

Yfirstjórn stofnunarinnar á að vera í höndum stjórnar sem fjármálaráðherra skipar. Hjördís Dröfn segir aðspurð að það liggi á að koma stofnuninni á fót. „Um leið og stjórnin verður skipuð munum við senda út fréttatilkynningu," segir hún.

Hafi haldgóða menntun og sérþekkingu í fjármálum

Samkvæmt lögum um síðarnefnda félagið er fjármálaráðherra heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem stuðla á að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Fjármálaráðherra á að annast undirbúning félagsins og stofnun í samráði við viðskiptaráðherra. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert.

Í lögunum um bankasýsluna og opinbera hlutafélagið er kveðið á um að stjórnendur skuli hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum.