*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 29. september 2020 15:42

Útboð Reita samþykkt og Regins lokið

Alls hyggst Reitir safna ríflega fimm milljörðum króna á útboðsgenginu 43. Fjórföld eftirspurn var í hlutafjárútboði Regins.

Ritstjórn
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.
Haraldur Guðjónsson

Forgangsréttarútboð Regins á 40 milljón nýjum hlutum er lokið þar sem rúmlega fjórföld eftirspurn var af nýjum hlutum og var útboðsgengið 15 krónur. Alls söfnuðust því 600 milljónir króna í útboði Regins en hlutafjárútboð Reita mun fara fram 20.-21. október næstkomandi. 

Sjá einnig: Hækka hlutafé til að greiða út arð

Í útboði Reita verða alls útgefnir 120 milljón hlutir eða sem nemur 18,22% af útistandandi hlutafé í félaginu. Útboðsgengið verður 43 krónur á hlut og hyggst félagið safna 5.160 milljónum króna. Bæði Reginn og Reitir sendu frá sér tilkynningu í gærkvöldi.

Hver áskrift í útboði Reita skal nema að lágmarki 100 þúsund krónum í almenna útboðinu en engin lágmarksupphæð er á áskriftum í forgangsréttarútboðinu. Þar sem útboðsgengið er 43 krónur er fjögur prósenta afsláttur veittur miðað við dagslokaverð hlutabréfa Reita í kauphöllinni þann 28. september. Bréf félagsins hafa lækkað um tæplega 2% í dag og standa í 44 krónum hvert.

Á hluthafafundi Reita þann 22. september var stjórn félagsins veitt heimild til hlutafjáraukningar. Í útboðinu munu núverandi hluthafar njóta forgangs, að forgangsrétti frágengnum verða nýju hlutirnir boðnir almennum fjárfestum.