Tveir helstu hluthafar belgísk-franska bankans Dexia fengu 1,5 milljarða evra að láni hjá bankanum til að kaupa hlutabréf hans fyrir árið 2008. Veð fyrir lánunum voru hlutabréfin sjálf. Slíkt er nú óheimilt innan aðildarríkja Evrópusambandsins.

Eftirlitsaðilar í Belgíu vissu af lánveitingunni og þrýstu á um að annar banki lánaði hluthöfunum fyrir kaupunum.

Breska dagblaðið Financial Times segir að upp hafi komist um lánveitinguna fyrr í þessum mánuði eftir að stjórnendur bankans neyddust til að senda út neyðarkall og leita eftir fjármagni hjá stjórnvöldum í Lúxemborg, Belgíu og Frakklandi til að koma honum í var í skugga skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Þetta var annað skiptið á þremur árum sem stjórnendurnir þurftu á aðstoð að halda.

Hluthafarnir eru félögin Holding Communal og Arco sem eiga saman rétt rúman þriðjungshlut í Dexia. Eigendahópur Holding Communal samanstendur af bæjarfélögum í Belgíu en eigendur Arco eru belgísk verkalýðsfélög.