Örn V. Kjartansson er framkvæmdastjóri FÍ Fasteignafélags. Félagið sérhæfir sig í rekstri fasteignafélaga í samvinnu við fjárfesta og sér meðal annars um samnefnt samlagshlutafélag sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða. Það félag keypti á dögunum Bernhöftstorfuna á tæpan milljarð íslenskra króna. Félagið hefur látið til sín taka undanfarna mánuði. Síðasta vor keypti það Laufásveg 31, sem hýsir breska og þýska sendiráðið, á 485 milljónir króna og í sumar keypti það Álfheima 74, betur þekkt sem Glæsibær, á 380 milljónir. Í síðustu viku bárust síðan fregnir um að félagið hefði keypt 4.500 fermetra eign að Flatahrauni 12 í Hafnarfirði en Iðnskólinn í Hafnarfirði er með húsið á leigu.

„Ég byrjaði sem gutti að vinna í verslunum eins og svo margir aðrir. Ég hélt því svo áfram eftir nám erlendis og vann í Hagkaupum þar sem ég var að vinna með Hagkaupsbræðrum og Óskari Magnússyni,“ segir Örn sem stýrði þar verslunum og setti upp nýjar. „Eftir að bræðurnir seldu Hagkaup þá fór ég og vann með þeim í verkefnum tengdum Kringlunni. Við stækkuðum Kringluna 1998 og ég tók svo við sem framkvæmdastjóri Kringlunnar,“ segir Örn sem síðar fór til fasteignafélagsins Stoða.

Örn er vanur maður þegar kemur að rekstri fasteignafélaga eftir að hafa starfað í geiranum frá árinu 1997. Um tíma starfaði hann sem framkvæmdastjóri eignaumsýslu fasteignafélagsins Stoða, síðar Landic Property. Stjórnaði hann þar innlendum hluta félagsins sem síðar myndaði fasteignafélagið Reiti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .