Verðbólga hefur ekki mælst minni á Bretlandseyjum í átta mánuði samkvæmt hagtölum sem voru birtar í gær. Samkvæmt mælingunni var verðbólga milli apríl og maí 0,3% sem samsvarar 2,5% á ársgrundvelli en hún var í 2,8% í apríl.

Samkvæmt hagstofu Bretlands má rekja lækkunina fyrst og fremst til lægra verðs á gasi til húshitunar og lægra raforkuverðs. Auk þess hafði lægra verð á matvörum, eins og grænmeti og kjöti, áhrif. Á móti kom að verð á flugfargjöldum, sérstaklega yfir Atlantshafið, fór hækkandi.

Þrátt fyrir að verðbólga fari minnkandi telja flestir hagfræðingar að stjórnendur Englandsbanka muni hækka vexti á þriðja ársfjórðungi í 5,75%. Þeir hækkuðu vexti síðast í maí í 5,5% og hafa þeir ekki verið jafn háir í sex ár. Verðbólga er enn yfir 2% marki Englandsbanka og á fundi í Wales á mánudagskvöld sagði Mervyn King seðlabankastjóri að hann óttaðist að verðbólga yrði treg til þess að falla að 2% mörkunum nema að það hægði á þáttum eins neyslu, fjárfestingu og vexti peningamagns í umferð.

Fleiri taka undir áhyggjur seðlabankastjórans. Financial Times hefur eftir Howard Archer, hjá greiningafyrirtækinu Global Insight, að breska hagkerfið sé ekki laust við verðbólguþrýsting inn og allar líkur séu á annarri vaxtahækkun og telur að hún gripið verði til hennar í síðasta lagi í ágúst.