Brimborg hefur tilkynnt um að allar nýjar bifreiðar umboðsins lækki í verði frá og með áramótum. Skýringin er sú að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur meðal annars ákveðið að lækka efra þrep virðusaukaskatts úr 25,5% í 24%. Samhliða þeirri breytingu hækkar neðra þrep virðisaukaskatts úr 7% í 11%.

„Sem dæmi um verðlækkun nýrra Mazda bíla má nefna Mazda CX-5 sem var á 5.590.000 kr. en er nú frá 5.490.000 kr. Eins má nefna Mazda2 sem var á verði frá 2.190.000 kr. en er nú frá 2.150.000 kr. Mazda3 var áður frá 3.190.000 kr. en er nú frá 3.140.000 kr.," segir í tilkynningu frá Brimborg.

Fjöldi vörutegunda lækkar

Brimborg er ekki eina bílaumboðið sem hefur tilkynnt um áhrif skattalækkana á verð á nýjum bílum. Í tilkynningu frá BL þann 17. desember kom fram að verð á Hyundai bifreiðum hefði þegar verið lækkað um 1,2%, sem nam á bilinu 20 þúsund til 100 þúsund króna lækkun á nýjum bílum og samsvaraði fyrirhugaðri lækkun á virðisaukaskatti.

Bílar eru þó ekki eina varan sem lækkar í verði vegna lækkunar á efra þrepi, heldur falla þar undir svo til öll heimilistæki, húsgögn, fatnaður, raftæki o.s.frv.