Ragnar Zophonías Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs, segir ekkert hæft í þeim orðrómi að verið sé að sameina Byr og Glitni. Hann bendir aukinheldur á að samkvæmt lögum sé ekki hægt að sameina sparisjóð og banka.

Í 106. grein laga um fjármálafyrirtæki segir meðal annars: „Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess er því aðeins heimill að sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag [...], nema þegar um er að ræða samruna tveggja eða fleiri sparisjóða sem ekki hefur verið breytt í hlutafélag eða hlutafélög."

Um páskana hefur verið þrálátur orðrómur um sameiningu fjármálafyrirtækja, meðal annars Byrs og Glitnis. Ragnar vísar þeim orðrómi á bug, eins og áður sagði. Hann segir að eina sameiningin sem hafi verið á borði Byrs hafi verið sameiningin við Sparisjóð Norðlendinga.