Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir að 116 milljóna króna samningur bæjarfélagsins við HF Verðbréf hafi ekki verið lagður fyrir fyrrverandi bæjarstjórn. Af þeim sökum hafi þáverandi minnihluti ekki haft hugmynd um samninginn. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Fyrrverandi meirihluti bæjarráðs gerði samning við HF Verðbréf í maí 2013 um ráðgjöf vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar bæjarfélagsins. Þessi vinna stóð yfir í um eitt ár og fékk HF Verðbréf greiddar rúmlega 116 milljónir króna frá Hafnarfjarðarbæ fyrir verkið.

Rósa, sem var í fyrrverandi minnihluta, segir í samtali við Morgunblaðið að engin fjárheimild hafi verið fyrir samningnum í fjárhagsáætlun. Þá hafi minnihlutanum ekki verið greint frá því fyrr en í byrjun þess árs að samið hafi verið við HF Verðbréf um ráðgjöf. Rósa hyggst láta kanna lögmæti samningsins.