*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Björg Ásta og Jóhanna Kl
12. júní 2021 13:43

Hver vill hefja viðskiptasamband með kæru?

Með því að leggja áherslu á gagnsæ opinber innkaup og útboð verkefna til atvinnulífsins tryggja opinberir aðilar hagstæðasta verðið út frá kröfum og styðja við atvinnulífið.

Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, kaupa árlega vörur, verk og þjónustu fyrir mörg hundruð milljarða króna. Það þarf því ekki að velkjast í vafa um að hið opinbera gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem stór kaupandi. Innkaup ríkisins eru markvisst nýtt sem hagstjórnartæki, nú síðast með sérstöku fjárfestingarátaki til að mæta áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Hið opinbera er m.a. mjög mikilvægur kaupandi á sviði byggingar- og mannvirkjagerðar en innan þess geira starfa nú fjölmörg fyrirtæki nánast eingöngu á opinberum útboðsmarkaði. Til að setja umfangið í samhengi kynntu opinberir aðilar og fyrirtæki í þeirra eigu áætlaðar verklegar framkvæmdir fyrir 139 milljarða króna á síðasta Útboðsþingi SI. Boðaðar voru framkvæmdir fyrir um 4,5% af væntri landsframleiðslu ársins sem er viðlíka og á síðasta ári þegar þær námu 4,6% af landsframleiðslu. Það eru því töluverðir hagsmunir fyrir fyrirtæki í byggingar- og mannvirkjagerð, hið opinbera og almenning að rétt sé staðið að opinberum innkaupum með öllum þeim jákvæðu áhrifum sem leiða af virkri samkeppni á markaði.

Í ljósi þess að um ráðstöfun á opinberu fé er að ræða er regluverkið um opinber innkaup strangt og lögð er áhersla á að rétt sé að þeim innkaupum staðið í hvívetna. Það er ekki síst til að auka gagnsæi um innkaupin en jafnframt að stuðla að nýliðun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Verkefni hins opinbera geta í eðli sínu verið sérstök og oft á tíðum einstök, m.a. út frá umfangi þeirra eða eðli. Með því að bjóða verkefni sín út er hið opinbera því líka að stuðla að aukinni sérfræðiþekkingu í atvinnulífinu. Þessi sérfræðiþekking býr svo til verðmæti innan fyrirtækjanna sem nýtist þeim svo áfram í næstu verkefni, jafnvel út fyrir landssteinana. Það er jú atvinnulífið sem býr til nauðsynlegar útflutningstekjur. En á meðan eftirlit með fyrirtækjum, sem leggja hart að sér til að uppfylla æ ríkari kröfur opinberra aðila til bjóðenda um fjárhagslegt heilbrigði, reynslu og færni og samfélagslega ábyrgð, verður meira og meira vakna spurningar um hver það er sem hefur eftirlit með hinu opinbera.

Þegar kemur að stórum verkefnum á vegum hins opinbera hljótum við öll að vera sammála um að útboð er meginreglan en þegar opinberir aðilar ákveða að víkja frá þeirri meginreglu eru úrræðin sem standa til boða af skornum skammti. Markaðurinn þarf í raun sjálfur að hafa eftirlit með innkaupum hins opinbera. Samtök iðnaðarins geta gætt hagsmuna félagsmanna sinna vegna meintra brota á lögum um opinber innkaup en það er ekki léttvægt skref að ráðast í slíkar aðgerðir þegar málið snýst fyrst og fremst um vilja fyrirtækja til að koma á farsælu viðskiptasambandi við verkkaupa.

Nýverið úrskurðaði kærunefnd útboðsmála í máli Samtaka iðnaðarins gegn Reykjavíkurborg. Varðaði málið ákvörðun borgarinnar um að afhenda fyrirtæki í eigu borgarinnar verkefni fyrir milljarða króna án útboðs. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa gert slíkt hið sama en um er að ræða verkefni sem ætti að leyfa atvinnulífinu að keppast um að sinna svo að sem hagstæðasta verðið fáist. Þegar opinber aðili á borð við Reykjavíkurborg afhendir verkefni til fyrirtækis í sinni eigu án undangengins útboðs er verið að grafa undan heilbrigðri samkeppni, útiloka hæf fyrirtæki og skapa tortryggni gagnvart því að verið sé að hygla ákveðnum fyrirtækjum hins opinbera sem starfa á samkeppnismarkaði umfram öðrum á einkamarkaði.

Tortryggni skapast líka heilt yfir þegar opinberir aðilar kjósa að reka fyrirtæki í samkeppnisrekstri yfirhöfuð. Talsverð umræða hefur í því samhengi verið í kringum rekstur borgarinnar á Malbikunarstöðinni Höfða. Sitt sýnist hverjum þegar kemur að þörf borgarinnar á að reka malbikunarstöð. Ekki er hægt að sjá að nein verkefni sem framkvæmd eru á vegum stöðvarinnar séu þess eðlis að borgin geti ekki boðið þau út og keypt þjónustu af einkaaðilum þeim ótengdum. Því skal þó haldið til haga að í þessu tilviki eru verkefnin vissulega boðin út en Höfði var valinn í 73% af útboðum Reykjavíkurborgar um malbiksyfirlagningu á árunum 2008-2016. Á árunum 2017-2020 jókst hlutdeild Höfða enn frekar og var 91%. Þegar farið er yfir þessar tölur gefur eignarhald borgarinnar tilefni til tortryggni og þær draga í eðli sínu líka úr vilja til að ráðast í samkeppni við fyrirtækið.

Með því að leggja áherslu á gagnsæ opinber innkaup og útboð verkefna til atvinnulífsins tryggja opinberir aðilar hagstæðasta verðið út frá kröfum en á sama tíma á það að vera markmið að styðja við áframhaldandi uppbyggingu sérfræðiþekkingar innan atvinnulífsins með útvistun verkefna í gegnum opinber innkaup. Flagga ætti því sérstaklega ef opinber aðili ætlar sér að víkja frá meginreglunni um opinber innkaup og fara á svig við útboð. Markaðurinn á ekki einn að hafa slíkt eftirlit. Það boðar nefnilega aldrei gott þegar viðskiptasamband hefst með kæru. 

Höfundar eru Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins, og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.