Í aðdraganda kosninga birtust bakþankar í Fréttablaðinu eftir Margréti Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra raftækjaverslunarinnar Pfaff. Óðinn taldi tíma sínum betur varið í annað þá. Einnig var Óðinn ekki viss um að bakþankarnir kæmu fyrir augu margra þar sem stöðugt er kvartað þessi dægrin yfir lélegri dreifingu Fréttablaðsins - sem þó tapaði tæpum 600 milljónum króna á síðasta ári. Vísbending um það er lítil fylgisaukning flokks blaðsins, Viðreisnar, í kosningunum.

Þótt Margrét sé ágætlega kynnt þá er rétt að minnast á að hún hefur margoft verið í framboði fyrir Samfylkinguna, bæði í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi.

* * *

Í bakþönkunum gerir Margrét skatta og skattprósentur að umfjöllunarefni. Við skulum gefa Margréti orðið:

Nýlega birtust upplýsingar um tekjur þúsunda Íslendinga í „tekjublöðum" Frjálsrar verslunar og DV, en þar er aðeins hálf sagan sögð. Þar er nefnilega horft fram hjá fjármagnstekjum, sem er helsta tekjulind auðugra Íslendinga. Vitað er að margir vinna svo til enga launavinnu en hafa verulegar tekjur í gegnum fjármagnstekjur. Ólíkt þessum fjölmiðlum tók Stundin hins vegar saman lista yfir tekjuhæstu Íslendinga þar sem bæði var horft til launa- og fjármagnstekna sem gefur mun réttari mynd. Og þá blasti óréttlætið við! Skatthlutföll launamanna eru á bilinu um 31-46%. Eftir því sem tekjur verða hærri því meira er greitt í skatta sem flestum finnst eðlilegt. Af hverri krónu sem launamaður aflar sér yfir tæpri milljón renna 46% í skatt. En ef þú átt miklar eignir og getur að auki hagað málum þannig að mest af tekjum þínum komi í gegnum fjármagnstekjur þá greiðir þú 22% í skatt óháð upphæð. Og það er mikill munur á 22% og 46%.

Það er rétt hjá Margréti að það er vissulega mikill munur á 22% og 46%. En það er líka mikill munur á saumavél og dráttarvél. Óðinn telur sig ekki þurfa að útskýra muninn á því síðarnefnda fyrir Margréti en telur sig þurfa að gera það á hinu fyrrnefnda.

* * *

Þegar eigendur fyrirtækja leggja fé í fyrirtæki, hvort sem það er í formi hlutafjár eða lánsfjár, þá hætta þeirfjármunum sínum. Þeir taka áhættu.

Skattareglur um rekstrarfélög á Íslandi eru ekki sérstaklega flóknar. Félög í atvinnurekstri greiða 20% tekjuskatt af hagnaði sínum og 6,1% tryggingagjald af launum og tengdum gjöldum. Í einstaka atvinnugreinum eru ívilnanir af hálfu ríkisins sem lækkar skattbyrðina og eins leggur ríkið hærri gjöld á sumar atvinnugreinar.

Ef rekstur félagsins gengur vel og það hagnast þá getur það greitt eigendum sínum arð. Ef eigandinn er einstaklingur þá greiðir hann 22% í fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslunni.

* * *

Vert er að benda á það að eigendum fyrirtækja er skylt að greiða sér laun í samræmi við reglur sem gefnar eru út af Skattinum árlega. Fer þá fjárhæð launa eftir hvaða starfi þeir gegna. Inntak reglunnar er svona:

Ef unnið er við atvinnurekstur lögaðila ber að reikna endurgjald ef maður er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. Maður telst ráðandi aðili ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum, eða starfandi hluthöfum, á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila, og á sjálfur 5% hlut eða meira í lögaðilanum. Með nákomnum ættingjum er átt við þá sem tengdir eru fjölskylduböndum, þ.m.t. tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur.

Það sem mestu skiptir er að sá sem leggur fé í atvinnurekstur greiðir ekki 22% fjármagnstekjuskatt. Áður er félagið búið að greiða 20% í tekjuskatt auk tryggingagjalds. Því greiðir fjárfestirinn að minnsta kosti 37,6% skatt þegar hann hefur fengið arð í hendur.

Einstaklingur greiðir 31,45% til 46,25% tekjuskatt en frá dregst persónuafsláttur. Samkvæmt Hagstofunni voru meðallaun á Íslandi 794 þúsund krónur árið 2020. Sá sem er með slík laun greiðir 27,2% í tekjuskatt og meðalútsvar. Til þess að ná sama skatthlutfalli og fjárfestirinn þarf launamaður að vera með rúmar 2,2 milljónir króna á mánuði í laun.

Einnig er mikilvægt að gleyma ekki að bótakerfið á Íslandi hefur veruleg áhrif á skattgreiðslur einstaklinga. Áhrif tekjutenginga á barnabætur og vaxtabætur gerir það að verkum að tekjuskattshlutfall þeirra sem eru undir hámörkunum, tekjutengingunum, er mun lægra.

* * *

Djúpstæður misskilningur

Í niðurlagi bakþanka sinna segir Margrét:

Kári Stefánsson sem var 13. tekjuhæsti Íslendingurinn í fyrra segir í samtali við Stundina það „vera glórulaust að auðkýfingar eins og hann sjálfur séu ekki skattlagðir hærra en raun ber vitni". Og Kári er á því að hann eigi marga skoðanabræður í hópi þeirra sem hæstar tekjurnar hafa. „Það er fullt af fólki í þessum hópi sem gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að auka tekjur ríkisins. Þú sækir ekki fé annars staðar en það er til staðar - og þarna er það helst að hafa. Það eru margir á því að íslenska skattkerfið sé ekki sanngjarnt - að breiðustu bökin beri einfaldlega ekki sinn skerf. Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur snýst því ekki um öfund heldur réttlæti.

Misskilningur þeirra beggja, kampavínskommúnistans Kára og Margrétar, er sá að gleyma að taka til tillit til þess tekjuskatts sem félögin sem þau hafa fjárfest í þurfa að standa skil á.

En misskilningurinn er djúpstæðari. Það gerist reglulega að vel efnað fólk kemur fram í fjölmiðlum og talar um að skattar séu allt of lágir, það eigi að hækka þá og margir efnamenn séu sammála þessum sjónarmiðum. Rétt eins og Kári og Margrét gerðu og vitnað er í hér fyrir ofan.

Við þessu hafði Bernard Kilgore, aðalritstjóri Wall Street Journal á árunum 1941-1967, svar. Þegar hann var spurður hvers vegna svo margir efnamenn styðja háa skatta svaraði hann: „Það er einfalt. Það er vegna þess að þeir eru þegar orðnir ríkir."

* * *

En hvað þýðir þetta? Jú. Það er erfitt bæði fyrir launamenn og fátæka fjárfesta og komast til álna ef skattar eru hærri. Í tilviki launamannsins er ástæðan sú að skattar eru háir og jaðarskattar enn hærri. Í tilviki unga fjárfestisins, fátæka fjárfestisins, þá er ástæðan sú sama - háir skattar - en að auki að baráttan á flestum mörkuðum er hörð og tapsáhættan því mikil.

Sama gildi ekki um þá sem þegar eru orðnir ríkir. Ef þeir eru sæmilega skynsamir þarf töluvert til að glutra auðnum niður. Þeir hinu sömu vilja ekki endilega fá fleiri í klúbbinn.

* * *

Tillaga Óðins

Ef Margrét Kristmannsdóttir er enn sömu skoðunar og í bakþönkunum sínum í byrjun september þá er Óðinn með alveg hreint stórgóða tillögu.

Óðinn fletti nefnilega upp ársreikningum Pfaff, þar sem Margrét á 16% hlut í dag. Samkvæmt ársreikningi 2020 var greiddur út 40 milljóna króna arður. Arður sem kom í hlut Margrétar var 6,4 milljónir króna. Ef Óðinn skilur Margréti rétt þá komst hún hjá 1,5 milljóna króna skattgreiðslu.

Árin á undan átti Margrét 7,37% hlut í félaginu. Frá árinu 2013-2019 greiddi Pfaff samtals 186 milljónir króna í arð. Í hlut Margrétar komu 13,7 milljónir króna. Þar komst Margrét, að eigin sögn, undan 3,3 milljónum króna í skattgreiðslur.

Tillaga Óðins er sem sagt sú að Margrét fái hluthafafund í Pfaff til að samþykkja að hlutur hennar beri ekki arð. Þetta er til dæmis hægt með A og B bréfa kerfi. Í stað arðgreiðslunnar fái hún kaupauka sem nemur arðgreiðslunni. Þar með eru þessir bakþankar Margrétar ekki eitthvað tal heldur raunveruleg skoðun sem mark er takandi á.

En ennþá stendur eftir eitt vandamál. Faðir Margrétar er stærsti eigandi Pfaff og hefur jafnframt fengið greiddan út arð. Það er nauðsynlegt fyrir Margréti, eigi hún að sofa vel á næturnar, að ef það kemur eitthvað í hlut hennar eftir dag föður hennar að hún leiðrétti skattgreiðslur hans aftur í tímann. Þetta er svolítið flóknara en Óðinn treystir því að endurskoðendur hennar finni ráð til að koma skattgreiðslum í það horf að það samrýmist lífssýn Margrétar. Og alveg er Óðinn viss um að skatturinn taki vel á móti þeim.

* * *

Bakþankar eftir bankþanka

En það er hins vegar ekki ólíklegt að Margrét hafi nú fengið bakþanka eftir þessa bankaþanka í Fréttablaðinu. Það er þá ekkert annað en að viðurkenna að fyrri bakþankarnir voru byggðir á misskilningi, jafnvel þekkingarskorti.

Óðinn mun ekki erfa þetta við Margréti.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .