Framfarir samfélagsins koma ekki af sjálfu sér heldur vegna framtaks einstaklinga og atvinnulífs. Oftar en ekki hefur þurft að berjast fyrir grundvallarbreytingum á samfélaginu líkt og gert var í kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík 1938 þar sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir hitaveituvæðingu borgarinnar og hafði sem betur fer sigur. Í kjölfarið vék kolareykurinn, kolakynding, kolaofnar og kolaryk fyrir hreinu lofti og heitu vatni. Sólar naut til fulls í Reykjavík.

Við sem störfum í stjórnmálum höfum verið gagnrýnd fyrir að segja sífellt sömu söguna. Söguna um hluti sem voru gerðir á síðustu öld – um rafmagn og hitaveitu sem breyttu lífsgæðum Íslendinga um alla framtíð. Að mínu mati tölum við ekki nógu mikið um þá sögu því af henni verðum við að læra. Styrkur íslensks efnahagslífs hvílir á þeim ákvörðunum sem þá voru teknar og tryggja okkur trausta, örugga og græna orku á sjálfbæran hátt. Í dag erum við einmitt að skrifa næsta kafla í framhaldssögunni. Sögunni um það hvernig við nýtum hugvitið til að skapa lausnir sem breyta framtíðinni. Þær lausnir byggja á þeim trausta grunni sem varð til vegna ákvarðana sem voru teknar á síðustu öld og vegna framtaks einstaklinga og atvinnulífs þess tíma.

Látum þá framsýni sem knúði fram hitaveituvæðinguna vera okkur fyrirmynd í átt að hreinum orkuskiptum og öflugum aðgerðum í loftslagsmálum.

Orkukrísa í skugga innrásar

Alvarleg orkukrísa dynur nú á nágrannaþjóðum okkar. Í Evrópu hefur staða orkumála versnað mjög eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Þar er nú unnið að neyðarráðstöfunum í orkumálum vegna afleiðinga stríðsins sem felur í sér orkuskort og hækkandi orkuverð. Leitað er allra leiða til að draga úr eftirspurn, auka fjölbreytni orkugjafa og fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum. Mikilvægi þess að vera ekki bara óháð jarðefnaeldsneyti, heldur óháð öðrum um orku og eldsneyti er öllum ljóst. Staðan dregur fram að orkusjálfstæði er mikilvægt þjóðaröryggismál.

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum: Að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2040. Verkefnið kallar á samdrátt í losun um 1,3 milljónir tonna CO2 á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Hert markmið Íslands kalla á skýrari sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífsins, aukinni áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða. Orkuskipti eru lykillinn að árangri á þessu svið og til að hægt sé að fara í þau er nauðsynlegt að framleiða meiri græna orku.

Nýtum grænu orkuna

Við njótum öll góðs af skynsamlegum ákvörðunum og nýtingu á orkuauðlindum landsins á undanförnum árum og áratugum. Látum þá framsýni sem knúði fram hitaveituvæðinguna vera okkur fyrirmynd í átt að hreinum orkuskiptum og öflugum aðgerðum í loftslagsmálum. Á sama hátt og forverar okkar kusu hitaveituna verðum við nú að kjósa að nýta græna orku með skynsömum hætti til orkuskipta. Það er sterkasta vopnið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.