Til eru alþjóðleg matsfyrirtæki sem meta eitt og annað hjá einstökum þjóðum. Við megum þakka fyrir að ekki hafi farið fram heildarmat á íslenskum stjórnmálum

Ætla má að við værum færð í ruslflokk og horfur stöðugar í þeim efnum svo langt sem augað eygir. Rökstuðningur frá Fitch Rating fyrir því gæti hljóðað einhvern veginn svona:

Á löggjafarþinginu eru átta þingflokkar þótt þingmenn séu einungis 63. Þar af tveir eins máls flokkar og tveir eins manns flokkar eftir að nýr formaður var kosinn í vinsælasta flokknum um þessar mundir. Af þessum 63 þingmönnum er átta manna þingflokkur sem berst fyrir fullkomlega gjaldþrota hugmyndafræði og leiðir þar að auki ríkisstjórnina. Við bætist fimm manna þingflokkur þar sem enginn veit hvaðan hann kom eða hvert hann er að fara. Sá flokkur náði 40% fylgi í skoðanakönnunum fyrir ekki svo mörgum árum. Ábyrgðarleysi og tækifærismennska fylgir þessu ástandi meira en góðu hófi gegnir.

Ríkisvædd manngæska

Of margir stjórnmálamenn hafa enga framtíðarsýn, stefnan óljós og takmörkuð tengsl við raunveruleikann. Sveiflast til og frá eftir umræðunni á samfélagsmiðlum á hverjum tíma. Skortur á raunsæi er áberandi og tilfinningar ráða alfarið för. Menn láta það gerast að hver sem lendir á flugvellinum og óskar verndar fær húsnæði og framfærslu, jafnvel árum saman, sem kostar tugi milljarða á ári. Fæstir uppfylli skilyrði fyrir vernd og svo finnast þeir ekki þegar beiðninni hefur verið hafnað eða koma aftur með næstu vél. Stjórnmálamenn eru tilbúnir að eyða tugum milljarða á ári í þetta ónýta kerfi með aukakostnaði vegna álags á húsnæðismarkað, heilbrigðiskerfið, skólana, löggæslu og réttarkerfið svo ekki sé talað um félagsþjónustuna. Má reikna þann kostnað einnig upp á tugi milljarða. Í ofanálag er ríkissjóður látinn greiða niður samninga á frjálsum vinnumarkaði upp á 80 milljarða. Engum dettur í hug að bera þetta splæs undir þingið, hvað þá þjóðina. Þessi ríkisvædda manngæska er komin út fyrir öll skynsamleg mörk.

Flestir ráðherrar keppast við að auka útgjöld í sínum málaflokkum á sama tíma og ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða halla og þykjast svo vera að berjast gegn verðbólgu. Stjórnarandstaðan veitir minna en ekkert aðhald og leggur aðeins til meiri útgjöld, helst í óþarfa, og hærri skatta. Stjórnmálamenn eru ófærir um að forgangsraða útgjöldum og hafa litla sem enga tilfinningu fyrir því hvað eru arðbærar fjárfestingar og hvað er óþarfa bruðl. Tækifærismennskan tröllríður öllu og peningum er dælt úr ríkissjóði til pólitískra hagsmunahópa og til að gera sem flesta listamenn að ríkisstarfsmönnum og lofað að bæta enn í þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla. Þessir peningar úr ríkissjóði eru síðan að miklu leyti notaðir í baráttu gegn eðlilegri atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun.

Stjórnmálamenn keppast við að eyða allri kostnaðarvitund almennings, sem leiðir óhjákvæmilega til mikillar sóunar. Allt á að vera gjaldfrítt. Maturinn ofan í börnin okkar skal vera gjaldfrír sem og allar óþarfa heimsóknir til heimilislæknis vegna kvefs og skitustings. Ríkisvaldið skal helst skaffa okkur allt, húsnæði, atvinnu, menntun og fleira mætti telja, svo enginn þurfi að taka nokkra ábyrgð á lífi sínu. Á endanum verða engir til sem hægt er að hækka skatta hjá.

Að gefa eigandanum fingurinn

Halli á ríkissjóði er ekki eini hallinn um þessar mundir. Stjórnmálamenn hafa lagt töluvert á sig til að skapa lýðræðishalla með því að útvista valdinu til ábyrgðarlauss fólks úti í bæ sem enginn kaus og landsmenn þekkja hvorki haus né sporð á. Við dritum niður sjálfstæðum úrskurðarnefndum sem ákveða tugmilljarða útgjöld án þess að bera nokkra ábyrgð, horfum á stjórnendur ríkisbanka gefa eigandanum fingurinn og einhverja klíku uppi í Efstaleiti taka yfir Ríkisútvarpið og lítur á það eins og hvert annað einkafirma. Stjórnmálamenn trúa því að þetta fyrirkomulag sé lýðræðislegra og faglegra. Þeir skilja svo ekkert í því að þeir sitja uppi með ábyrgðina þegar illa fer. Er eins og enginn þeirra hafi gluggað í stjórnarskrána. Rithöfundar á listamannalaunum gætu ekki einu sinni skáldað þessa vitleysu upp.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins