Rekstrarstjóri 3X Technology á Ísafirði, Karl Kristján Ásgeirsson, segir að fyrirtækið hafi kannski ekki alltaf skilað myljandi hagnaði, en það hafi lagt mikið í vöruþróun undanfarin ár sem hann væntir mikils af.

„Framtíðin er bara björt, við höfum verið að vinna mikið í nýjum tæknilausnum á undanförnum árum. Þar á meðal er þessi ofurkæling, en við höfum verið að vinna með snigiltankalausnir síðan 2006 í margs konar tilgangi, meðal annars til að stýra blæðingunni, þá bæði um borð í bátum og í nýslátruðum laxi. Við getum komið þessari lausn fyrir í allt niður í tíu metra báta.“ segir Karl.

„Við notum núna snigiltanka til að kæla niður hráefnið þannig að það þarf ekki að nota neinn ís í framleiðsluna og til að lengja dauðastirnunarferlið, sem gerir það að verkum að geymslutíminn lengist. Varan byrjar ekki að skemmast fyrr en fiskur eða kjöt hefur farið í gegnum svokallaða dauðastirnun, þannig að með þessu náum við að lengja það ferli. Í dag erum við með þessari nýjustu tækni komin með geymsluþol á ferskum laxi upp í 21 dag, sem þá ferska vöru án þess að frysta neitt.“

Karl segir að það sé misjafnt eftir tegundum hve mikið sé kælt niður. „Í laxinum erum við að kæla niður í mínus eina og hálfa gráðu, við förum ekki alveg svo langt í þorski, en við erum að fara undir þessi svokölluðu fasaskipti, sem breytir vörunni úr ferskri í frosna, þannig að það er bara misjafnt hitastig sem við erum að vinna með,“ segir Karl.

„Við erum að stýra þessu alveg í gegnum ferlið, við byrjum á að kæla sem sagt sjóinn í blæðingunni, ef sjórinn er mjög heitur. Annars notum við bara sjóinn eins og hann er, það er ef hitastigið er ásættanlegt. Síðan bætum við aðeins salti í og kælum meira niður, eftir því sem líður á.“

Karl segir að ýmist sé fiskurinn bara blóðgaður strax eða blóðgaður og síðan slægður. „Við pössum alltaf að klára blæðingarferlið fyrst áður en við förum að kæla hann niður, því við viljum ekki loka blóðið inni í kælingunni. Það er gert til þess að halda fiskinum hvítum og fallegum, en það er líka vegna þess að það er meira af gerlum í blóðvökvanum heldur en bara í holdinu,“ segir Karl.

„Sumir telja það vera betra að blóðga fyrst, og láta bara blæða, og slægja svo, þeir telja að blóðtæmingin verði betri þannig.“

Spara heilmikla orkunotkun og sóun

Jafnframt spara lausnir fyrirtækisins heilmikla orkunotkun að sögn Karls. „Kælitæknin gerir það að verkum að engan ís þarf um borð svo þú þarft ekki að framleiða neinn ís. Það er ódýrara að kæla niður með þessum hætti, því kæliorkan er bæði spöruð og síðan fer engin kæling til spillis heldur. Þú ert alltaf að henda ís í vinnslunni og því fylgir ákveðin sóun. Þetta er svolítið ný hugsun,“ segir Karl.

„Við settum þetta fyrst um borð í Málmey frá FIKSeafood á Sauðárkróki. Þeir fóru í ákveðnar breytingar, en þetta var frystiskip áður, en við köllum þetta ferskfiskskip í dag. Þetta er ekki ísfiskskip, því við erum ekki með ís um borð, eini ísinn sem kemur um borð er Kjörís.“

Karl segir að með þessari nýju tækni sé hægt að tryggja að fiskurinn geymist við lágt hitastig alla leið inn í vinnslu. „Þegar fiskurinn er búinn að fara í gegnum þessa snigiltanga á millidekkinu, þá fer hann bara ofan í lest, í kör, þar er enginn ís, eða vatn eða neitt,“ segir Karl.

„Lestin er búin kæligræjum þannig að við getum haldið þessari kælingu og keyrt á bara mínus einni gráðu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .