Nú stendur yfir val á markaðsfyrirtæki ársins en ÍMARK, samtök markaðsfólks á Íslandi hefur veitt Markaðsverðlaunin frá árinu 1991. Nú hefur verið lokað fyrir innsendingar á tilnefningum og hefur tíu manna dómnefnd hafið störf, en aldrei hafa verið sendar fleiri tilnefningar en í ár.

Markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku í markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja. Félagsmenn ÍMARK hafa sent inn tilnefningar á fyrirtækjum sem þeir telja að hafa staðið sig vel í markaðsmálum undanfarin misseri og þurfa fyrirtækin núna sjálf að senda inn gögn sem svo dómnefnd á vegum ÍMARK fer yfir.

Dómnefndin sker síðan þann lista í fyrstu umferð niður í fimm fyrirtæki en síðan verður eitt þeirra valið sem markaðsfyrirtæki ársins. Viðkomandi fyrirtæki hlýtur þá nafnbótina í tvö heil ár þar sem verðlaunin eru veitt annað hvert ár á móti markaðsmanneskju ársins.

„Íslensku markaðsverðlaunin eru mikilvægur þáttur í því að auka veg og virðingu markaðsmála á Íslandi og stuðla að aukinni fagmennsku í markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja sem er einn megin tilgangur ÍMARK,“ segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK.

„Það verður spennandi að sjá hvaða fyrirtæki verður valið markaðsfyrirtæki ársins því aldrei hafa verið fleiri innsendingar og mörg alveg framúrskarandi fyrirtæki að berjast um nafnbótina.“

Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á tímabilinu og sannað sýnilegan árangur af markaðsstarfi þeirra. Við ákvörðun um verðlaunahafa er tekið mið af fagmennsku í markaðsstarfi og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar.

Dómnefndin velur efstu fimm fyrirtækin til að halda ítarlega kynningu sem ásamt fleiri gögnum er notað til að velja markaðsfyrirtæki ársins. Dómnefnd á markaðsfyrirtæki ársins skipa fulltrúar úr stjórn ÍMARK, háskólasamfélaginu og atvinnulífinu.

Dómnefndina í ár skipa:

  • Andrés Jónsson - Góð samskipti
  • Bragi Valdimar Skúlason - Brandenburg
  • Edda Blumenstein - BeOmni
  • Guðmundur Arnar Guðmundsson - Akademias
  • Jón Þorgeir Kristjánsson - Þjóðleikhúsið
  • Katrín M. Guðjónsdóttir - Men&Mice
  • María Hrund Marínósdóttir - Móðurskipið
  • Sunneva Sverrisdóttir - CO/PLUS
  • Svala Guðmundsdóttir - Háskóli Íslands
  • Þórhallur Örn Guðlaugsson - Háskóli Íslands