Evrópska fyrirtækið RSA, dreifingaraðili BYD rafbílanna í Noregi, Finnlandi og Íslandi, hefur útvíkkað samstarf sitt við kínverska rafbílaframleiðandann og mun nú hefja innflutning á BYD fólksbílum á Íslandi, Finnlandi og í Noregi. Vatt ehf., dótturfélag Suzuki bíla, er söluaðili BYD á Íslandi.

„Fram undan hjá okkur í lok apríl er að kynna þrjá 100% rafknúna fólksbíla frá BYD,“ segir Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri BYD á Íslandi í tilkynningu.

Umræddar þrjár gerðir BYD fólksbílanna eru sjö sæta rafbíllinn BYD Tang, litli sportjeppinn BYD Atto3 auk BYD Han, sportlegs fólksbíls í lúxusflokki. BYD Han skilar 509 hestöflum og hraðar sér úr 0-100 km. á klst. á 3,9 sekúndum.

„Við teljum þessa bíla henta einstaklega vel inn á íslenska markaðinn þar sem eftirspurn eftir rafbílum eykst stöðugt. Bílarnir eiga það allir sameiginlegt að vera í háum framleiðslugæðum, með hátæknivæddar rafhlöðulausnir og mikinn búnað að öðru leyti. Það er eftirvænting í loftinu að geta boðið íslenskum bílkaupendum breiða línu bíla frá BYD,“ segir Úlfar.

BYD er stærsti framleiðandi rafknúinna bíla í heiminum. Kínverska fyrirtækið er eini bílaframleiðandi heims sem framleiðir sjálfur rafhlöður sínar, örgjörva, stýrikerfi fyrir rafhlöður og rafmótora. BYD seldi á heimsvísu um 1,86 milljónir rafknúna bíla árið 2022, sem var aukning upp á 155,1% frá árinu 2021.