Boss HHHC hópurinn ætlar að hlaupa frá Akureyri til Reykjavíkur dagana fram að Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.

Leiðina frá Akureyri til Reykjavíkur ætla þeir að hlaupa á fimm dögum, 14. – 18. ágúst og mun hver hlaupari hlaupa heilt maraþon á dag í kílómetrum talið. Í kjölfarið tekur við sjötta og síðasta maraþonið, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, sem haldið er 19. ágúst. Í gegnum öll sex maraþonin verða þeir klæddir fatnaði frá Hugo Boss.

„Við munum leggja okkur alla fram og snyrtilegur klæðnaður verður alltaf í fyrirrúmi (Hæ Boss!). Að þessu sinni verður hraðinn ekki aðalatriði. Við minnum samt á að HHHC er hraðasti hlaupahópur landsins og um leið sá fallegasti, a.m.k. ef við erum spurðir!," segja þeir félagar sjálfir.

Hópurinn, sem samanstendur af sextán hlaupurum, hleypur fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, og í minningu Ingu Hrundar Kjartansdóttur, sem lést í fyrra aðeins 37 ára af völdum krabbameins. Hún var eiginkona Rúnars Marinós Ragnarssonar, sjúkraþjálfara og félaga þeirra. Þar að auki tileinka þeir hlaupið öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein.

Markmið hópsins er að safna fimm milljónum króna, en þegar þetta er skrifað hafa þeir safnað 551 þúsund krónum. Þar af hefur hreinlætisfyrirtækið Tandur styrkt hópinn um 500 þúsund krónur. Hægt er að heita á hlaupahópinn hér.