Íslenska eimingarverksmiðjan Hovdenak Distillery hlaut á dögunum verðlaunin Sustainable Distillery of the Year í London.

Hovdenak var hluti af keppninni World Drink Awards en eimarinn hefur áður unnið gullverðlaun fyrir Stuðlaberg Gin, Loka Vodka og kaffi líkjörinn Rökkva.

„Verðlaunin eru einstaklega hjartnæm þar sem við höfum unnið hart að því að reyna gera allt sem við getum til að minnka kolefnisspor okkar. Við kolefnisjöfnum allar útkeyrslur og höfum skipt út öllu plasti yfir í pappír,“ segir Hákon Freyr Hovdenak, forstjóri Hovdenak Distillery.

Nafnið Hovdenak er norskt og varð það fyrir valinu þegar fyrirtækið var stofnað árið 2018 í Hafnarfirði. Fyrsta varan sem eimingarverksmiðjan framleiddi fékk nafnið Stuðlaberg Gin.

Framleiðsluferli fyrirtækisins er einnig frábrugðið öðrum eimingarverksmiðjum að því leytinu til að eimingin fer öll fram í lofttæmi og eimast því varan undir mun lægra hitastigi en við hefðbundnar aðferðir.

Hovdenak Distillery hefur nú þegar sent vörur sínar til Mauritíusar, Madagaskar, Noregs, Bandaríkjanna og er nú að vinna hörðum höndum að því að komast inn á Bretlandsmarkað.