Nýverið hófst útrás íslensku áfengisframleiðslunnar Þoran Distillery til meginlands Evrópu. Af því tilefni var blásið til veislu í Amsterdam í húsakynnum Bernhard af Orange-Nassau, sem er einn af prinsum hollensku konungsfjölskyldunnar.

„Bernhard er góður vinur okkar og bauð okkur að nota heimili sitt til að fagna því að Marberg gin sé núna fáanlegt á meginlandi Evrópu. Hann er líka mikill áhugamaður um góðan mat og góða drykki, þannig að þetta hentaði okkur mjög vel,“ segir Birgir Már Sigurðsson, stofnandi Þoran Distillery.

Boðið var upp á allar þrjár útgáfurnar af Marberg, meðal annars hið margverðlaunaða Marberg Dry Gin ásamt svörtum kavíar og ljúffengum ostrum.

Þoran Distillery gaf út sína fyrstu vöru árið 2019 en eftir Covid var uppskriftinni og framleiðsluaðferðinni fyrir Marberg gin gjörsamlega breytt. Síðan þá hefur gengið vel að markaðssetja ginið og bendir Birgir á að það sé að mörgu leyti íslensku hráefnunum að þakka.

Boðið var upp á allar þrjár útgáfurnar af Marberg ásamt svörtum kavíar.
© Samsett (SAMSETT)

„Við notum söl, birki og beltisþara í okkar vörur og auðvitað íslenskt vatn, sem erlendum aðilum þykir gríðarlega spennandi. Þetta eru hráefni sem eru öll týnd hérlendis á sjálfbæran máta, enda mjög mikilvægt fyrir okkar vörur að þær séu framleiddar á vistvænan hátt.“

Birgir segir helstu viðskiptavini ginsins telja veitingastaðina Moss á The Retreat í Bláa lóninu, Francois Geurds í Rotterdam og The Duchess í Amsterdam. „Þetta eru allt veitingastaðir með eina eða tvær Michelin-stjörnur og hentar því mjög vel að bjóða þar upp á Marberg gin.“