Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) hefur samþykkt nýtt lyf gegn fæðuofnæmi en stofnunin segir að lyfið sé það fyrsta sinnar tegundar.

Lyfið kallast Xolair og hefur áður fyrr verið notað gegn alvarlegum astma, ofsakláða og nefsepa.

Í tilkynningu frá eftirlitinu segir að FDA hafi samþykkt lyfið, sem einnig kallast omalizumab, í kjölfar rannsókna á fólki sem er með fæðuofnæmi. Í rannsókninni fengu 168 fullorðnir og börn með hnetuofnæmi Xolair-sprautur í 16 til 20 vikur.

Í lok rannsóknarinnar kom í ljós að 68% þátttakenda gátu borðað það sem samsvarar 2,5 jarðhnetum án þess að fá alvarleg ofnæmiseinkenni. Aðeins þrír af 55 þátttakendum í lyfleysuhópnum gátu þolað sama magn af hnetupróteini án þess að fá alvarleg einkenni.

„Þetta nýsamþykkta lyf mun veita meðferðarmöguleika til að draga úr hættu á skaðlegum ofnæmisviðbrögðum meðal tiltekinna sjúklinga með IgE-miðlað fæðuofnæmi,“ segir í yfirlýsingu frá FDA.