Þrjú mót á LIV-mótaröðinni í golfi í ár verða spiluð á völlum í eigu Donald Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Listi yfir mót og velli 2023 tímabilsins, fyrsta formlega tímabils mótaraðarinnar, var birtur í dag.

LIV, sem þjóðarsjóður Sádi-Arabíu fjármagnar, hóf göngu sína í fyrra. Donald Trump hefur verið meðal stuðningsmanna hinna umdeildu mótaraðar og voru tvö mót í fyrra spiluð á Trump völlum.

Þrjú af fjórtán mótum á 2023 LIV tímabilinu verða einnig spiluð á golfvöllum í eigu Trump. Það fyrsta verður í Washington í lok maí, annað mótið verður í New Jersey í ágúst og það þriðja verður í Miami í október.

Dustin Johnson, Greg Norman og Donald Trump í júlí 2022.
© epa (epa)

Trump lýsti því í viðtali við WSJ í fyrra að virði landkynningar Sádi-Arabíu af LIV sé þegar nokkurra milljarða dala virði. Í sama viðtali sagði hann að ágreiningur vegna morðs á blaðamanninum Jamal Khashoggi, sem bandaríska leyniþjónustan ályktaði að krónprinsinn Mohammed bin Salman hefði fyrirskipað, hefði „algjörlega fjarða undan“. Hann vildi einnig lítið tjá sig um gagnrýni fjölskylda fórnarlamba hryðjuverkanna 11. september 2001 vegna tengingar LIV við stjórnvöld í Sádi-Arabíu.

Í umfjöllun Bloomberg er minnst á að Trump Organization hafi skrifað undir samkomulag við fasteignarþróunarfélag frá Sádi-Arabíu um verkefni í Óman sem felur m.a. í sér golfvöll og hótel. Samningurinn hljóðar upp á 4 milljarða dala, eða um 560 milljarða króna.