Heiðrún Jónsdóttir lögmaður mun taka við starfi framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja af Katrínu Júlíusdóttur sem hefur gegnt starfinu síðastliðin sex ár. Katrín sagði starfi sínu lausu í lok ágúst.

Í morgun var tilkynnt um að Heiðrún hefði sagt sig úr stjórn Íslandsbanki en hún hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2016 og verið varaformaður frá árinu 2020.

Heiðrún hefur starfað sem lögmaður í áraraðir og hefur stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu. Hún var stjórnarformaður hjá Íslenskum verðbréfum 2014-2016 og hjá Gildi lífeyrissjóði 2008-2014, síðast sem stjórnarformaður. Þá hefur hún m.a. setið í stjórnum Regins, Icelandair, Símans, Olís, Norðlenska, Reiknistofu bankanna, Ístaks, Arion verðbréfavörslu og Royal Arctic Line á Grænlandi.

Heiðrún var framkvæmdastjóri hjá Eimskip á árunum 2006-2012 þar sem hún stýrði m.a. starfsmannamálum og markaðsmálum. Þá var hún framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar Lex á árunum 2003-2005, upplýsingafulltrúi Símans 2001-2003 og starfsmannastjóri og lögfræðingur hjá KEA 1998-2001. Hún hefur einnig kennt við lagadeildir Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands og víðar.

Heiðrún Jónsdóttir:

„Ég hlakka til að taka til starfa hjá Samtökum fjármálafyrirtækja og með því góða fólki sem þar starfar. Innan aðildarfélaganna starfar öflugur, fjölbreyttur og kraftmikill hópur sem ég hlakka til að starfa með. Verkefnin eru fjölbreytt og afar áhugaverð. Fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og markaðurinn er síbreytilegur og fjölbreyttur. “

Lilja Einarsdóttir, stjórnarformaður SFF.

„Heiðrún Jónsdóttir er reynslumikill og öflugur stjórnandi og það þar mikill fengur fyrir okkur að fá hana til liðs við SFF. Það eru alltaf áskoranir og krefjandi verkefni á borði samtakanna sem telja 25 verðbréfafyrirtæki, tryggingarfélög, greiðslumiðlunarfyrirtæki, sparisjóði og banka. Um leið og ég býð Heiðrúnu velkomna þakka ég Katrínu Júlíusdóttur aftur kærlega fyrir góð störf fyrir samtökin og óska henni velfarnaðar.“

Innan Samtaka fjármálafyrirtækja eru 25 aðildarfélög. Hjá SFF starfa nú 6 starfsmenn.