„Mér líst afskaplega vel á nýja starfið og það hefur verið mjög gaman að koma inn í þann öfluga hóp sem starfar hjá Arctic Adventures," segir Birta Ísólfsdóttir sem hefur verið ráðin markaðsstjóri hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures.

Birta kemur frá auglýsingastofunni Kiwi þar sem hún starfaði sem markaðsráðgjafi. Hún er útskrifaður fatahönnuður frá LHÍ og hefur starfað við fatahönnun meðal annars hjá 66°Norður og GK Reykjavík auk þess að hafa staðið í sjálfstæðum rekstri með nýsköpunarfyrirtæki sem framleiddi trefla og aðrar vörur úr æðardún.

„Mér finnst ferðaþjónustan spennandi starfsvettvangur og sé fjölmörg tækifæri þar í tengslum við markaðsmálin. Arctic Adventures er kannski sérstakt fyrirtæki í geiranum fyrir þær sakir að það teygir sögu sína til ársins 1983. Það er því rótgróið fyrirtæki sem er í stöðugum vexti."

Birta segir frábært að geta samtvinnað áhugamálin sín í starfi. „Ég hef ótrúlega gaman að útivist og hreyfingu utandyra, þá helst hlaupandi á fjöllum. Ég elska líka að ferðast um landið og kynnast því betur hvað náttúran hefur uppá að bjóða. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á markaðsmálum svo það er algjörlega frábært að geta samtvinnað áhugamálin sín í starfi."

Birta er gift Kristjáni Pétri Sæmundssyni og saman eiga þau tvö börn. „Við fjölskyldan nýtum okkur flest öll tækifæri til að ferðast um landið og eyðum við miklum tíma hjá fjölskyldu minni í Fljótshlíðinni og í Hrísey í Eyjafirði í lengri fríum."

Nánar er rætt við Önnu Regínu í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 11. maí. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.