Gert er ráð fyrir að 14.500 nýjar íbúðir verði byggðar í Reykjavík á árunum fram til 2030. Á sama tíma mun Reykvíkingum fjölga um 25 þúsund. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Ekki stendur til að ný hverfi verði til innan Reykjavíkur heldur verða flestar af þessum nýju íbúðum byggðar vestan Elliðaáa. 12.200 þeirra verða í Vatnsmýrinni, miðborginni og Elliðarárvogi, en allt að 90% nýrra íbúða á skipulagstímabilinu eiga að rísa innan núverandi skipulagsmarka. Um er að ræða að meðaltali 800 nýjar íbúðir sem byggðar verða á hverju ári. Samkvæmt fréttinni voru byggðar um 660 íbúðir að meðaltali á ári á árunum 1972 til 2007.

Á sama tíma er gert ráð fyrir að reist verði að lágmarki ein milljón fermetrar af nýju atvinnuhúsnæði. Gert er ráð fyrir að allavega 18 þúsund ný störf verði til í borginni fram til 2030.